Deilurnar um sjávarútvegsmálin hafa klofið þjóðina á undanförnum áratugum. Ef eitthvað er hafa virðast þær deilur vera að harðna síðustu misserin. Gífuryrði og sleggjudómar hafa einkennt þessar deilur umfram annað, á báða bóga. Myndin með þessum pistli er dæmi um auglýsingaherferð sem farin var á vegum þeirra sem vilja standa vörð um deilurnar og átti að sýna fram á þær mannlegu hörmungar sem biðu okkar allra ef reynt yrði að leysa þær deilur. Og þetta var áður en nokkrar tillögur í þá áttina höfðu verið lagðar fram. Hugsunin ein um að verið væri að skoða málið var tilefni slíkra viðbragða.
Það er ekkert vit í þessu.
Á dögunum var norður á Akureyri haldin fundur á vegum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um þau frumvörp sem nú liggja fyrir Alþingi um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Ég óskaði eftir að fá að vera í hópi framsögumanna á fundinum, kynna efni frumvarpanna og svara fyrirspurnum fundarmanna ásamt öðrum frummælendum úr hópi útgerðarmanna, lögmanna, sveitarstjórnarmanna og fiskverkafólks. Atvinnuþróunarfélagið hafnaði þeirri ósk minni. Síðan var kvartað yfir því að ekki fengust upplýsingar eða rökræður um þessi stóru mál.
Það er ekkert vit í þessu.
Ekki að ég sé best til þess fallinn að taka slíka umræðu, heldur að beinlínis sé komið í veg fyrir hana. Nema markmiðið sé að forðast rökræðuna með það að markmiði að koma í veg fyrir lausn á erfiðu deilummáli. Sé það markmiðið þá skil ég afstöðu þeirra sem forðast rökræðuna. Þá skil ég það.
En það er samt ekkert vit í því.