Árni Páll skrifar ágætis grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni „Stíflugarðar á floti – um gagnslítil og stórskaðleg gjaldeyrishöft“. Í greininni fer hann yfir ástæðu þess að gjaldeyrishöft voru sett á hér á landi haustið 2008 sem að mati Árna Páls var óhjákvæmilegt að gera og þá erfiðleika sem slík höft geta haft í för með sér. Árni Páll hefur líka haft skilning á gildi gjaldeyrishaftann enda lagði hann sjálfur sem ráðherra efnahagsmála fram á Alþingi allnokkur lagafrumvörp í þeim tilgangi að styrkja þau frekar þannig að þau virkuðu sem skildi. Dæmi um það má sjá hér, hér, hér og hér.
Það er vissulega rétt hjá Árna Páli aðgjaldeyrishöft eru og verða alltaf til vandræða þó svo að mat hans og flestra annarra hafi verið að neyðin hafi kvalið þrjár ríkisstjórnir til að setja og treysta höftin í sessi. Enginn efast heldur um nauðsyn þess að losna undan gjaldeyrishöftunum sem allra fyrst eins og reyndar er unnið að samkvæmt áætlun þar um.
Í niðurlagi greinar sinnar vitna Árni Páll í Nóbelsskáldið sem taldi það vera þjóðarlöst Íslendinga að hunsa stóru málin og eyða orku sinni frekar í þras um tittlingaskít.
Þarna verð ég hinsvegar að vera ósammála félaga Árna Páli, a.m.k. hvað varðar þá ríkisstjórn sem hann átti sæti í og þann stjórnarmeirihluta sem nú situr á Alþingi. Engin ríkisstjórn, ekkert þing í lýðveldissögu landsins hefur fengið slík verkefni í hendur og okkur voru færð í upphafi kjörtímabilsins – og leyst þau með sóma svo eftir er tekið. Árni Páll á ekki lítinn þátt í því, bæði sem þingmaður og ráðherra enda hefur hann aldrei dregið úr liði sínu í þeim erfiðu og flóknu verkefnum sem rekið hafa á fjörurnar síðustu árin, frekar en við hin.
Það hefur ekki verið tittlingaskít í þeirri fjöru að finna fram að þessu.