Vaðlaheiðargöng - umræða í ógöngum

Fram hefur komið mikill misskilningur hjá nokkrum þingmönnum varðandi framkvæmd væntanlegra Vaðlaheiðarganga. Sumir þeirra hafa jafnvel haldið því fram að meiri líkur séu á því en minni að allur kostnaður við gerð ganganna lendi á ríkissjóð.

Ekkert slíkt er í spilunum heldur þvert á móti.

Í frumvarpi til laga um fjármögnun ganganna kemur fram að kostnaður við gerð gangann muni ekki falla á ríkissjóð ef áætlanir gangi ekki. Jafnvel þó svo forsendur verði í rauninni mun verri en nú er gengið út frá að verði, muni einungis óverulegur hluti kostnaðar hugsanlega geta lent á ríkissjóði. Um þetta segir í umsögn IFS Greiningar sem fylgir með frumvarpinu (bls. 3):

„Að mati IFS Ráðgjafar ehf. eru forsendur varðandi þessa þætti í áætlunum verkefnisins innan raunhæfra marka, þar sem þær byggja á áætluðum kostnaði Vegagerðarinnar, að teknu tilliti til niðurstöðu útboðs og 7% óvissuálags.“

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hefur svo þetta að segja um umsagnir IFS Greiningar og ríkisábyrgðarsjóðs (bls. 61):

Jafnvel þótt frávik verði til hins verra á einhverjum þessara áhættuþátta virðist ekki líklegt að það geti orðið í því mæli að ríkissjóður verði fyrir umtalsverðum fjárhagsskaða, svo sem að hann þurfi að taka á sig öll útgjöldin við verkefnið, þar sem telja má að fyrir hendi verði tekjustreymi af veggjaldinu sem muni á endanum standa undir verkefninu að mestu ef ekki öllu

leyti.“

Það er óhugsandi að ráðast í framkvæmd af þessari stærðargráðu með því að fjármagna hana með hefðbundnum hætti úr ríkissjóði. Ríkissjóður tæmdist í Hruninu (eru kannski allir búnir að gleyma því?) og ófær um slíka fjármögnun – nema fá samsvarandi tekjur á móti. Aðeins með þeim hætti er hægt að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi og þannig mun verða með væntanleg Vaðlaheiðargöng.

Ávinningurinn af gangagerðinni felst ekki aðeins í bættum samgöngum heldur ekki síður í því að stórframkvæmd sem þessi mun verða veruleg innspýting í hagkerfið þegar við þurfum hvað mest á því að halda auk þess sem að styðja við aðrar aðgerðir stjórnvalda við að nýta takmarkað fé til samfélagsmála betur en áður. Það liggur fyrir að ríkið mun á framkvæmdartímanum fá tekjur af framkvæmdinni sem nemur hærri upphæð en ríkið leggur sem hlutafé í félagið sem mun standa að framkvæmdinni. Það liggur fyrir að ríkið mun fá langstærsta hluta ef ekki allan kostnaðinn af gerð ganganna greiddan til baka með veggjöldum. Það liggur fyrir að engin önnur vegaframkvæmd af þessari stærðargráðu er möguleg nema gerð Vaðlaheiðarganga vegna teknanna af rekstri ganganna. Það liggur líka fyrir að gerð Vaðlaheiðarganga mun ekki í neinu raska röð annarra samgönguframkvæmda vegna

þess að ekki verður um fjármögnun að ræða úr ríkissjóði og því ekki verið að taka frá fjármuni sem mætti nota í annað.

Gerð Vaðlaheiðarganga er mikilvæg framkvæmd í margskonar skilningi, framkvæmd sem á að vera hafin yfir þá undarlegu umræðu sem um hana hefur staðið að undanförnu.

Við megum ekki við því að komið verði í veg fyrir framkvæmd sem þessa og allra síst með þeim rökum sem verið er að beita í þeim efnum og halda hvorki vatni né vindi.