Það bætist stöðugt í hóp þeirra sem segjast vera að íhuga forsetaframboð. Þrír eru þegar búnir að gera upp hug sinn, Ástþór Magnússon, Jón Lárusson og Ólafur Ragnar Grímsson. Samkvæmt lauslegri talningu sýnist mér að a.m.k. sjö aðrir hafi annaðhvort sagst vera að íhuga framboð eða verið orðaðir við framboð. Enginn þeirra er líklegur til að vinna kosningu gegn sitjandi forseta – nema – einhver þeirra verði einn í framboði gegn honum (tel hvorki Jón né Ástþór með). Ef þjóðin á að eiga raunhæfan möguleika á að skipta um forseta þarf valið að standa á milli tveggja, þess sem nú gegnir embættinu og annars sem líklegur er til að geta fellt hann úr embætti. Þeir sem eru að íhuga framboð eða hafa verið taldir líklegir frambjóðendur virðast hafa a.m.k. eitt sameiginlegt, þ.e. að vilja skipta um forseta. Kannski er besta leiðin til þess sú að þau komi sér saman um að standa að baki einum frambjóðanda? Myndi hreyfingu sem stendur sterkur og sameinaður að baki einum aðila. Það skiptir ekki öllu hver hann verður. Öll eru þau sem eru í umræðunni frambærileg og líkleg til að verða góðir forsetar.
Fyrir þjóðina skiptir það mestu máli að kosningarnar snúist um raunhæfa valkosti en ekki um fjölda nýrra og frambærilegra frambjóðenda.