Það er vandasamt að flytja fréttir af alvarlegum slysum og sviplegum dauðsföllum. Dæmi eru um að fréttaflutningur af slíkum tilefnum hafi hvorki sýnt þeim sem málin varða nauðsynlega nærgætni eða tillitssemi. Í því sambandi skiptir miklu að fréttar af þannig atburðum séu ekki fluttar nánast samhliða því sem þeir eru að gerast. Það getur varla verið til of mikils mælst af fjölmiðlum að gefa þeim málin varða nægjanlegt svigrúm til að bregðast við eins og nauðsynlegt er að gera áður en landsmönnum öllum eru færðar slíkar fréttir. Þó ekki væri nema af tillitssemi við aðstandendur og að fréttir verði þá nákvæmari og byggðar á betri upplýsingum en oft vill gerast.
Ég hef fullan skilning á afstöðu sjómanna sem hafa lýst yfir andúð sinni á fréttaflutningi af banaslysi um borð í togaranum Sigurbjörgu ÓF-1 í vikunni.
Um það segir Vilhjálmur Sigurðsson skipstjóri skipsins:
„Í framhaldi af þessu hræðilega slysi sem varð um borð í skipi mínu í morgun, vildi ég óska að fjölmiðlar þessa lands temdu sér vandaðri vinnubrögð, eins Landhelgisgæsla Íslands, að vera ekki með beina útsendingu af slysstað. Það þarf að gefa viðkomandi aðilum séns á að hafa samband við aðstandendur sem tekur þó nokkurn tíma, ekki gott að þurfa að vera í kapphlaupi við fjölmiðla.“
Þetta er vel mælt og af yfirvegun hjá Vilhjálmi eins og hans er von og vísa og full ástæða til að taka undir með honum.