Sagt var frá því í fréttum í dag að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar færu um í fylgd öryggisvarða og heimili þeirra væru vöktuð nótt sem dag. Af þessu tilefni sér Egill Helgason ástæðu til að vitna í ummæli annars ráðherrans um þá ríkisstjórn sem setti landið nánast á hausinn.
Þannig tekur Egill nokkurskonar „honum-var-nær-og-gott-á-hann“ afstöðu til málsins.
Munurinn er hinsvegar sá að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki einangrast og hún hefur ekki lokað sig af frá almenningi. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki ráðið sér öryggisverði til að forðast almenning eins og sú sem almenningur kom frá í byrjun árs 2009. Lögreglan hefur skipað þeim öryggisverði vegna alvarlegra hótanna sem þeim og fjölskyldum þeirra hafa borist. Ríkisstjórnin eiga ekki að fara frá eða einangra sig frá almenningi vegna hótanna ofbeldismanna sem ráðherrum berast eins og liggur í orðum Egils Helgasonar.
Almennilegar ríkisstjórnir verjast hótunum af því tagi sem beint hefur verið að ráðherrunum tveim. Hótanir um alvarlegt ofbeldi á ekki að verða til þess að ríkisstjórnir fari eða komi. Þannig er lýðræðið varið umfram annað og ofbeldisfólki sýnt að það mun ekki ná markmiðum sýnum.
Þetta eiga fjölmiðlamenn eins og Egill Helgason auðvitað að vita og því undarlegt að sjá þessi tóna frá honum.