Um hádegisbil þann 6. október 2008 lánaði Seðlabanki Íslands Kaupþingi 500 milljónir evra, jafngildi um 85 milljarða íslenskra króna. Engin samþykkt var gerð í stjórn bankans um lánið. Engin lánasamningur var gerður um lánveitinguna og ekki liggur ljóst fyrir á hverju þessi ranga ákvörðun var grundvölluð. Það liggur hinsvegar ljóst fyrir að þáverandi formaður stjórnar Seðlabankans sá til þess að lánið var veitt og hann gerði það í samráði við þáverandi forsætisráðherra Íslands.
Fyrrverandi formaður seðlabankanssagði það fyrir Landsdómi á dögunum að hann hafi vitað það með löngum fyrirvara að bankarnir væru fallnir.
Samt lánaði hann 85 milljarða úr sjóðum bankans í gjaldþrota banka.
Fyrrverandi forsætisráðherra vissi það sömuleiðis þennan dag, þann 6. október að bankarnir væru fallnir enda lagði hann daginn þann fram frumvarp til laga, svo kölluð neyðarlög af því tilefni. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að lánið var veitt.
Samt jánkaði hann ráðum seðlabankastjóra um að lána 85 milljarða króna í gjaldþrota einkabanka.
Í stuttu máli:
1. Engir samningar voru gerðir um lánveitinguna.
2. Engin samþykkt lá fyrir um lánveitinguna af hálfu bankastjórnar.
3. Forsætisráðherra landsins vissi að bankarnir vour farnir á hausinn þegar hann lagði blessun sína yfir lánveitinguna.
Er ekki tilefni til að skoða þetta eitthvað frekar? Eða eigum við að láta sem ekkert sé?
Það þarf varla að taka það fram að stór hluti lánsins tapaðist í Hruninu.
Og við borgum.