Nú heyrast ekki lengur þær raddir sem vildu að hætt yrði við réttarhöldin yfir fyrrverandi formanni sjálfstæðisflokksins. Einu umkvartanirnar eru nú um að ekki sé hægt að fylgjast með réttarhöldunum í beinni útsendingu í sjónvarpi eða á netinu jafnfram því sem kvartað er yfir plássleysi í réttarsalnum sem takmarkar fjölda áhugasamra áhorfenda. Fjölmiðlar kvarta sáran fyrir aðstöðuleysi og telja sig ekki geta flutt þjóðinni fréttir af gangi mála og hafa talsvert til síns máls í þeim efnum.
Flestir eru nú þeirrar skoðunar að nauðsynlegt hafi verið að færa þennan hluta Hrunsins inn í réttarsal og fyrir Landsdóm. Enda hefur komið í ljós að íslensk stjórnvöld undir forystu formanns sjálfstæðisflokksins sem verið er að rétta yfir, sýndu af sér fádæma andvaraleysi við landstjórnina í aðdraganda Hrunsins, ekki aðeins síðustu mánuðina fyrir Hrun heldur langt aftur í tímann, líkt og
fram kom í vitnaleiðslum síðast í morgun.
Enn hefur það þó ekki gerst að nokkur maður hafi viðurkennt ábyrgð af neinu tagi heldur vísar hver á annan í þeim efnum. Hinn ákærði segist enga ábyrgð bera þrátt fyrir að augljóst sé að hann var ekki starfi sínu vaxinn og greip ekki til þeirra ráða sem allir almennilegir stjórnendur hefðu gert í hans stöðu.
Fyrrverandi formaður stjórnar Seðlabanka Íslands segist enga ábyrgð bera, þrátt fyrir að hafa keyrt bankann í þrot með farmferði sínu og glórulausum viðskiptum við hina föllnu banka.
Fulltrúar eftirlitisstofnanna vísa sömuleiðis allri ábyrgð frá sér þó svo að það blasi við að þeir brugðust skyldum sínum með afdrifaríkum afleiðingum fyrir þjóðina.
Í gær flutti svo formaður sjálfstæðisflokksins dæmalausa ræðu á Alþingi þar sem hann vísar allri ábyrgð af afleiðingum Hrunsins yfir á þá stjórnmálamenn sem hafa tekið að sér það hlutverk að greiða úr óreiðunni sem sjálfstæðisflokkurinn skyldi eftir sig í íslensku samfélagi haustið 2008 ber augljóslega mesta ábyrgð allra flokka á.
Það ber sem sagt enginn ábyrgð frekar en fyrri daginn og illa brugðist við umræðu um mögulega ábyrgð.
Það eru því engin merki um að nokkur á þessum væng stjórnmálanna muni nokkru sinni axla ábyrgð á gerðum sínum - nema þá að vera dæmdur til þess.