Hljómsveitin góðkunna, Roðlaust og beinlaust er aðeins þekkt af góðu einu eins og allir vita. Aðalmarkmið sveitarlima er að skemmta sjálfum sér og láta gott af sér leiða í leiðinni. Enda máttu þeir ekkert aumt sjá án þess að bregaðst við og rétta út traustar hjálpar hendur.
Það var því fullkomlega í anda sveitarinnar að blása til styrktartónleika haustið 2003 þegar mikil umræða var í þjóðfélaginu um kjör bankastjóra Kaupþingsbanka sem ýmist þóttu vera of eða van launaðir. Ólíkt þeim stjórnmálamönnum sem þá réðu ríkjum hér á landi, greip hljómsveitin Roðlaust og beinlaust til aðgerða til að forða frekara tjóni og hélt fjölmenna tónleika norður í Ólafsfirði þeim til stuðnings, ekki síður andlega en fjárhagslega.
Tónleikagestir létu heldur ekki sitt eftir liggja þegar á reyndi og voru ósinkir á aurinn þegar eftir því var gengið. Þegar upp var staðið höfðu safnast alls kr. 3.114 (þrjú þúsund eitt hundrað og fjórtán íslenskar krónur) sem skipt var jafnt milli bankastjóranna og þeim síðan send upphæðin með fallegum ávísunum frá Sparisjóði Ólafsfjarðar ásamt hjartnæmi bréfi frá hljómsveitarlimum (sjá mynd ofar).
Og þóttust þá menn hafa unnið góðverk sem héldi.
En þá kom í ljós hvaða menn bankastjórarnir höfðu að geyma og fáir hafa haldið til haga. Fáum dögum síðar barst hljómsveitinni bréf frá þeim báðum þar sem þeir afþökkuðu framlag norðanmanna, með vinsemd og vinabragðið sem þeir þóttust finna af tilefninu, þó súrsætt væri að þeirra mati (sjá mynd). Þrátt fyrir þrengingar og tímabundið mótlæti höfðu þeir Hreiðar og Sigurður ákveðið að standa í fæturna, afþakka stuðningin (með þökkum þó), taka vindinn í fangið og mæta örlögum sínum. Það er manndómsbragur af því sem ekki verður af þeim tekið.
Nú segist engin hafa gert sér grein fyrir að efnahagskerfi landsins væri að hruni komið fyrr en daginn sem það gerðist. Í það minnsta ef marka má yfirheyrslurnar fyrir Landsdómi.
En það gerðu félagarnir í Roðlaust og beinlaust hinsvegar strax árið 2003, heilum 5 árum fyrir Hrun. Þeir höfðu nefið fyrir ástandinu og vissu það sem allir vita nú að fyrstu merkin um að allt sé að fara ti fjandans er þegar óvissa skapast í launamálum þeirra sem eru í efsta lagi samfélagsins. Þá fyrst þegar fjármunir byrja að streyma til þess hóps, í öfugu hlutfalli við hæfileika þeirra og getu, þá er kominn tími til að sjóbúast og festa lausa hluti áður en slys hljótast af.
Þeir í Roðlaust og beinlaust vita það líka eins og aðrir sjómenn að þegar rotturnar flýja frá borði er hættuástand framundan.
PS: Fyrirmælum bankastjóranna var auðvitað fylgt til enda og upphæðin óskipt látin renna til góðra mála í Ólafsfirði.