Björguðum Íslandi!

Kristján Þór Júlíusson er ágætur náungi. Virkar kúl en er sauðmeinlaus að öllu jöfnu. Svo er hann orginal norðanmaður sem er gæðastimpill sem ekki verður af honum tekinn.

Kristján Þór var í viðtali á Bylgjunni í gær þar sem hann var að böggast út í ríkisstjórnina sem hann sagði ekki vera líklega til afreka. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi sagði hann stjórnina ekki hafa burði til þess að takast á við stóru málin, t.d. Evrópusambandið, fiskveiðimálin og stjórnarskrármálið. Nú er það svo að engin þessara mála rúmast innan áhugasviðs sjálfstæðisflokksins heldur þvert á móti berst flokkurinn gegn þeim á öllum vígstöðvum. Kannski má skilja áhyggjur Kristjáns Þórs sem stefnubreytingu varðandi þessi stóru mál og hann sé tilbúinn til að veita stjórninni þann norðlenska styrk sem hún þarf á að halda vegna þeirra?

Kristján Þór sendir síðan samþingmönnum sínum tóninn og segir þá orkulausa og gjörsamlega búna að tæma batteríin og ekki þjóðinni bjóðandi.

Mér finnst það dálítið merkilegt að Alþingi og ríkisstjórn sé lýst með þessum hætti þegar staðreyndin er sú að ekkert þing hefur afrekað jafn mikið og það sem nú situr. Ríkisstjórn Samfylkinga og Vinstri grænna er sú starfsamasta á lýðveldistímanum og sú sem náð hefur mestum árangri við stjórn landsins frá upphafi.

Skoðum það aðeins betur.

Við upphaf kjörtímabilsins var Ísland einangrað á alþjóðavettvangi, með hryðjuverkalög á bakinu vegna ríkisstjórnar sjálfstæðisflokksins, allir íslensku bankarnir gjaldþrota, Seðlabanki þjóðarinnar var gjaldþrota, krónan fallin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mættur til landsins, norðurlandaþjóðirnar með hjálparpakka í gangi handa okkur og Færeyingar færðu okkur peninga til að létta undir með okkur. Íslendingar streymdu þúsundum saman af vinnumarkaði í atvinnuleysi, þúsundir fyrirtækja urðu gjaldþrota, eignir heimila brunnu upp í kreppubálinu og skuldir almennings blésu út.

Ísland var á þessum tíma almennt talið vera á leið í gjaldþrot.

En það varð ekki.

Nú eru um 93% fólks á vinnumarkaðinum með atvinnu sem er með því mesta sem gerist í Evrópu (ef ekki það mesta),  engin stjórnvöld hafa gripið til jafn viðamikilla og árangursríkra aðgerða til aðstoðar skuldsettum heimilum og þau sem nú ríkja, hlutfall heimila sem er að glíma við alvarleg vanskil vegna húsnæðismála sinna er nú það sama og var á árunum 2004/2005 (og talsvert minna en 1997/1998), Ísland er ekki lengur á lista yfir þjóðir sem hafa framið efnahagsleg hryðjuverk, hagvöxtur á Íslandi er einn sá mesti á vesturlöndum, Ísland hefur öðlast alþjóða viðurkenningu fyrir uppbyggingarstarfið eftir eyðilegginguna 2008, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er farin til síns heima, ný stjórnarskrá verður borin undir þjóðaratkvæði í sumar og Landsdómur er að gera upp þann hluta Hrunsins sem að stjórnmálunum snýr.

Afrekaskrá ríkisstjórnar og Alþingis er miklu lengri eins og allir vita. Ekkert af þessu var gert með aðstoð sjálfstæðisflokksins eða honum þóknanlegt.

Í fáum orðum má segja að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hafi bjargað Íslandi.

Það er ekki svo lítið.