Allt undir borðið!

Örlög tillögu formanns sjálfstæðisflokksins um að falla frá málsókn Alþingis gegn fyrrum formanni sjálfstæðisflokksins ráðast í dag. Verði tillagan samþykkt felur það ekki aðeins í sér að stjórnálamenn hafi ákveðið að losa sjálfa sig undan ábyrgð á Hruninu og afleiðingum þess heldur fylgir meira með í pakkanum. Meðal þess er að öll undirgögn málsins, þau sem saksókni og vörnin byggjast á verða lokuð inni í 30 til 80 ár, eftir eðli þeirra. Ef Alþingi ber hinsvegar gæfu til þess að láta Landsdóm ljúka sínu verki verður það gert í heyranda hljóði strax í næstu viku og öll málsgögn þar með lögð fram og gerð aðgengileg öllum þeim sem áhuga hafa á þeim.

Með öðrum orðum: Verði tillaga formanns sjálfstæðisflokksins felld munu öll gögn málsins verða opinber strax í næstu viku – verði hún samþykkt munu gögnin verða geymd í læstum hyrslum í 30 til 80 ár og þá aðeins koma sagnfræðingum framtíðarinnar að gagni.

Það myndi vafalaust gleðja marga.