Mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar

Sagt er frá því á Smugunni í gær að Friðrik Þór Friðriksson einn virtasti kvikmyndagerðarmaður þjóðarinnar telji að íslenskum stjórnvöldum sé hreinlega illa við íslenska kvikmyndagerð og sýni henni sérstaka óvild. Friðrik segir það óskiljanlegt að þrátt fyrir að rannsóknir sýni að hver króna í opinberum styrkjum til kvikmyndagerðar skili sér fimmfalt til baka.

Nú má sjálfsagt deila um þetta eins og annað sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér og nú. Hagræn áhrif íslenskrar kvikmyndagerðar og íslenskrar menningar er hafið yfir allan vafa þó auðvitað heyrist raddir um annað. Þær raddir koma ekki innan úr röðum stjórnarliða.

Hver hafa framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar verið síðustu árin, fyrir Hrunið og eftir það? Á efri myndinni hér að ofan má sjá línurit yfir framlög ríkissjóðs til kvikmyndagerðar á verðlagi ársins 2011.

Á myndinni þar fyrir neðan sést hvert framlag til íslenskra kvikmyndagerðar er á sama tíma.

Á þessu sést vel hver sveiflan í framlögum hefur verið mikil á undanförnum árum og þá sérstaklega í kjölfar kreppunnar. Sambærileg línurit eru til um framlög ríkisins til margskonar annarra mikilvægra verkefna sem verulega dró úr í kjölfar Hrunsins.

Mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar er óumdeilt. Það er líka óumdeilt að framlög ríkisins til íslenskrar kvikmyndagerðar skertust í Hruninu eins og annarsstaðar. Það er líka hafið yfir allan vafa að framlög ríkisins til kvikmyndagerðar hafa að undanförnu aukist verulega og munu aukast enn frekar t.d. í kjölfar nýrra laga um endurgreiðslur til greinarinnar sem samþykkt voru á Alþingi fyrir áramótin.

Það er óumdeilt að framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar hafa aðeins einu sinni verið hærri en á árinu 2011 og fara hækkandi eins og áður sagði. Heildarframlög til kvikmyndagerðar hafa aldrei verið eins há og á árinu 2011 og munu halda áfram að hækka á árinu 2012.

Það er sanngjarnt að halda mikilægi íslenskrar kvikmyndagerðar hátt á lofti og það eiga menn að gera.

Það er hinsvegar ósanngjarnt að halda því fram að stjórnvöldum sé beinlínis illa við íslenska kvikmyndagerð.

Það eru engin haldgóð rök fyrir slíkum fullyrðingum.