Nýjan sannleik, takk!

Undanhaldið frá landsdómi er rekið á all undarlegum forsendum. Ein slík er að nú væri nær að setja á fót einhverskonar sannleiksnefnd um ástæður Hrunsins í stað þess að vera vesenast með þennan landsdóm. Með þeim hætti mætti leiða í ljós sannleikann um það sem í raun og veur gerðist hér á landi og hverjir beru hugsanlega ábyrgð á þeim  ósköpum öllum.

Þetta er verðugt verkefni og reyndar alveg nauðsynlegt til að geta gert upp við Hrunið.

Málið er hinsvegar að það er löngu búið að gera þetta! Alþingi samþykkti nefnilega „Lög um rannsókn á aðdragana og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdar atburða“ sem tóku gildi þann 18. desember 2008. Í fyrstu grein þeirra laga segir m.a.:

„Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.“

Það er sem sagt búið að leiða sannleikann í ljós og leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafði verið að ræða. Þetta má allt sjá í níu binda skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ef menn vilja leita sannleikans á annað borð. Á þeim gögnum er landsdómsmálið rekið.

En það er eins og þetta sé ekki sá sannleikur sem sumir vildu sjá. Nú er kallað eftir nýjum sannleik. Öðrum sannleik en Rannsóknarnefnd Alþingis komst að. Sannleik sem fellur betur að hagsmunum þeirra sem vita sekt sína.

Það mun hinsvegar aldrei finnast nógu góður sannleikur til að gera þá frjálsa sem hafa einsett sér að lifa í lyginni.