Skattaumræða á villigötum

Á dæmalausum skattafundi Viðskiptaráðs og Deloitte á dögunum, sem vakið hefur mikla athygli, bar Vala Valtýsdóttir, skattasérfræðingur Deloitte, saman árangur Íslands og Írlands við að reisa efnahagslíf landanna úr rústum hrunsins. Hún hélt því fram að Írar hafi farið allt aðrar leiðir en Ísland og náð mun betri árangri með hóflegri skattlagningu, öfugt við skattabrjálæðið sem sagt er að ríki hér á landi.

Eigum við að skoða þetta aðeins betur?

Halli á ríkissjóði Íslands verður á árinu 2012 rétt ríflega 1% af VLF á meðan hann verður upp undir  9% á Írlandi. Þessi gríðarlegi halli á Írlandi stafar ekki síst af því að skattkerfið á Írlandi er ekki og hefur ekki verið að skila þeim tekjum sem landinu er nauðsynlegt að hafa. Skattkerfið á Írlandi flýtur í rauninni enn á því froðuhagkerfi sem þar ríkti, rétt eins og hér. Írar eru hinsvegar að átta sig á þessu og þá sérstakleg á því að þeir þurfa á raunverulegum tekjum að halda til að reka samfélag sitt. Þeir hafa því þegar ráðist í umfangsmiklar skattabreytingar í þeim tilgangi eins og kunnugt er öllum, nema þá skattasérfræðingum Deloitte og Viðskiptaráðs. Viðbrögðin hjá stórfyrirtækjum létu heldur ekki á sér standa sem rétt eins og hér á landi hótuðu að fara í burtu ef við þeim yrði hreyft. Þeir hafa hinsvegar farið þá leið, öfugt við Ísland að láta megin þunga skattabreytinga bitna á lágtekjufólki og almennu launafólki en ekki hreyft að neinu marki við þeim efnameiri. Það er kannski þetta sem íslensku skattasérfræðingarnir voru að dásama á fundi sinum í gær?

Tökum  nokkur dæmi um skattahækkanir og niðurskurð úr Írsku fjárlögunum fyrir árið 2012:

  • Fjármagnstekjuskattur einstaklinga hækkaður í 30%, þar með talinn skattur á vaxtatekjur af bankainnstæðum.
  • Nýr flatur skattur á öll heimili sem síðar verður breytt í fasteignaskatt.
  • Erfðafjárskattur hækkaður í 30%.
  • Virðisaukaskattur hækkaður úr 21% í 23%.
  • Tóbaksgjald hækkað um 25 cent/pakka.
  • Kolefnisgjald fjárfaldað, hækkað úr €5 í €20 per tonn.
  • Bifreiðagjöld (motor tax) hækkuð mikið.
  • Skattafrádráttur vegna framlags í lífeyrissjóð, sem áður var 50%, felldur brott.
  • Barnabætur aflagðar fyrir börn umfram 2 (í skrefum) og almenn lækkun fyrir fyrsta og annað barn.
  • Örorkubætur lækkaðar hjá yngsta aldursflokki öryrkja og lágmarksaldur færður í 18 ár.
  • Örorkubætur lagðar af hjá einstaklingum með 15% örorku eða þar undir.
  • Vaxtabætur lækkaðar.
  • Húsaleigubætur lækkaðar.
  • Lífeyrisréttindi eftirlifandi maka ríkisstarfsmanna skert verulega
  • Umtalsverður niðurskurður í heilbrigðiskerfin
  • Umtalsverður niðurskurður í menntamálum.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir þá stefnir halli á ríkissjóði Írlands hátt í 9% af VLF á árinu 2012. Hagvaxtartölur á Írlandi eru mun verri en á Íslandi að mati AGS fyrir 2011 eða +1,1% á móti 2,6% hér og 2012 +1% á móti 2,4% hér á landi. Írar eru því ekki að ná að keyra upp mikinn hagvöxt  með því að hanga á lágum fyrirtækjasköttum fram í rauðan dauðann eins og skilja mátti á skattasérfræðingi Deloitte. Það blasir því að meira þarf að koma til að Írar hafi nægar tekjur fyrir útgjöldum og frekari aðgerðir fyrirsjáanlegar við jafnt tekjuöflun sem niðurskurð þar í landi. Reyndar eru þeir hvattir til þess að gera það sem gera þarf til að rétta við gríðarlegan halla á rekstri sínum og verja þannig sem kostur er lífsskilyrði íbúa landsins. Rétt eins og aðrar þjóðir hafa þurft að gera. Þar á meðal íslendingar sem hafa náð langt um meiri árangri í ríkisfjármálum en flestar aðrar þjóðir, að Írum meðtöldum.

Breyti þar engu um hvað hinu Íslenska viðskiptaráði og skattasérfræðingum þess finnst um það.