Fyrir nokkrum dögum birtist skýrsla um væntanleg Vaðlaheiðargöng eftir Pálma Kristinsson. Sá segist hafa unnið skýrsluna samkvæmt þrábeiðni ýmissa aðila sem hann þó nafngreinir ekki. Hann hefur sent Umhverfis- og samgöngunefnd skýrsluna og hefur forystusveit nefndarinnar tekið henni fagnandi og tilkynnt að téður Pálmi verði boðaður til fundar við nefndina hið fyrsta. Formaður nefndarinnar segir skýrslu Pálma einmitt vera það sem meirihluti nefndarinnar hafa alltaf viljað fá að heyra jafnframt því sem hún hvetur þingmenn til að vera heiðarlega í þessu máli. Nema hvaða? Við skulum fara aðeins yfir þetta. Alþingi samþykkti lög um opinberar vegaframkvæmdir í júní 2010, þ.á.m. Vaðlaheiðargöng. Málið hafði þá verið rætt í Samgöngunefnd þingsins sem var sammála um málið eins og sjá má í nefndaráliti þar um. Málið var síðan samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á Alþingi. Aðeins tveir þingmenn lögðust gegn málinu og tíu sátu hjá. Þar með lá það skýrt fyrir að Alþingi hafði ákveðið að ráðast í tilteknar vegaframkvæmdir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Haustið 2011 heimilaði Alþingi síðan fjármálaráðherra að tryggja fjármögnun verksins, bæði með ákvæðum í Fjáraukalögum 2011 (sjá bls. 2) sem og í fjárlögum 2012 (sjá bls. 7) og sérstökum tillögum fylgjandi þeim. Fjárlaganefnd setti tiltekin skilyrði fyrir fjármögnuninni sem fjármálaráðherra var gert að uppfylla og kynna nefndinni áður en gengið yrði til skuldbindandi samninga. Málið er sam sagt allt varðað að ákvörðunum þingsins hverju sinni ólíkt því sem Pálmi Kristinsson og andstæðingar verksins halda fram. Þingið og þingmenn hafa unnið af því að heilindum og fyrir opnum tjöldum að þoka þessu verkefni áfram og reynt að tryggja það í bak og fyrir að réttilega sé að því staðið á alla kanta. Ávirðingar um óheiðarleika af hálfu formanns Umhverfis- og samgöngunefndar um ófagleg vinnubrögð og óheilindi að ekki sé nú talað um blammeringar frá téðum Pálma eiga því ekki við nein rök að styðjast, heldur þvert á móti. Málið er ekki lengur samgöngumál og heyrir því ekki lengur undir samgöngunefnd Alþingis. Þeim kafla lauk með samþykkt laga um þessar framkvæmdir sumarið 2010 eins og áður sagði. Eftir það hefur það snúið að fjármálum ríkisins og ábyrgð þess á verkinu. Það er því fullkominn misskilningur að halda því fram að Umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hafi eitthvað um það að segja hvort af þessu verki verður eða ekki. Það væri nær að Velferðarnefnd tæki málið til umfjöllunar enda eru samgöngur ekki síst velferðarmál þegar betur er að gáð. Fjárlaganefnd hefur forræði á þessu máli samkvæmt ákvörðun þingsins þar um sl. haust og það mun koma í hlut fjárlaganefnar að gera tillögur um áframhald þess. Samkvæmt ákvörðun þingsins skal fjármálaráðherra kynna fjárlaganefnd niðurstöður af úttekt óháðra aðila á því hvort forsendur vegna verksins standist. Það mun ráðherra væntanlega gera á næstu dögum þegar sú úttekt liggur fyrir. Þangað til geta þeir sem vilja drepa verkefnið fundað út í eitt mín vegna.
Kannski verðum þeim að ósk sinni – kannski ekki.