Geggjun

Fyrir stuttu átti ég samtal við framkvæmdastjóra í stóru fyrirtæki innan vébanda Samtaka iðnaðarins. Sá var fullur heiftar út í stjórnvöld eins og títt er um marga vel stæða og sterkefnaða menn enda telja þeir öðrum fremur að of þungar kreppu byrðar séu lagðar á herðar þeirra. Þessi sagðist telja rétt að ég (og reyndar fleiri) fengi skot í hnakkann, rétt eins og Quisling forðum. Ég ætti að hafa það hugfast hvernig fór fyrir þeim norska, sagði framkvæmdastjórinn, það gæti auðveldlega hent fleiri, hótaði hann.

Ég velti því fyrir mér að leita til lögreglunnar en ákvað að láta kjurt liggja -  í bili.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, skrifaði víst grein í Morgunblaðið, málgagn sjálfstæðisflokksins í dag. Í greininni lýsir hann takmarkalausri aðdáun sinni á því sem fyrir augu hans bar í Moskvu á dögunum. Samkvæmt lýsingu Helga er engu líkara en hann hafi upplifað pólitíska fullnægingu á að sjá með eigin augum þá dýrðarinnar dásemd sem félagar hans og svartstakkar hafa náð að skapa á undanförnum árum í framtíðarlandi Samtaka iðnaðarins. Lágir skattar þar austur frá virðast hafa heillað Helga upp úr skónum enda saknar hans greinilega þess tíma þegar skattar á hátekjufólk, fjármagnseigendur og fyrirtæki á Íslandi voru sambærilegir því sem Pútínarnir hafa innleitt í fyrirheitna landinu. En Helgi skrifar ekki um spillinguna og ójöfnuðinn sem slíkt stjórnarfar leiddi af sér hér heima og varð okkur að lokum að falli og margir telja að sé ein mesta meinsemd í landinu sem Samtök iðnaðarins virðast nú hafa tekið í pólitískt fóstur. Helgi vill meina að við eigum að taka Rússland til fyrirmyndar í efnahags- og atvinnumálum og við eigum hiklaust að leita í pólitískt vopnabúr systra hans og bræðra sem nú stýra landinu. Í nafni Samtaka iðnarins heimsótti Helgi Rússland og kom heim fullur af þeim innblæstri sem hans pólitísku skynfæri námu af götum Moskvuborgar og jafnframt fullur eldmóðs til að breyta Íslandi aftur til þess sem einu sinni var og reyndar gott betur. „Tökum okkur Rússa til fyrirmyndar,“ hrópar Helgi af síðum Morgunblaðsins. „Skiptum gæðunum á milli útvaldra pólitískra vina eins og Pútín gerir,“ orgar formaður Samtaka iðnaðarins og horfir með söknuði til liðinna ára. Til að setja svo punktinn endalega aftan við erindið, endurtekur Helgi formaður svo lofrulluna frá uphafi til enda í kvöldfréttum RÚV eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Um tíma hélt ég að um grín frétt væri að ræða – datt ekki í hug að nokkur maður væri svo veruleikafirrtur sem greina má í skrifum og orðum formanns Samtaka iðnaðarins. En þetta er langt frá því að vera eitthvað saklaust spaug, heldur dauðans alvara og á að taka þannig.

Innan Samtaka iðnaðarins eru fjölmörg aðildarfélög og fyrirtæki með mörg þúsund starfsmenn á sínum snærum. Hvað finnst forystumönnum aðildarfélaganna um þá framtíðarsýn sem Helgi sér fyrir sér hér á landi? Hvaða segir Félag skrúðgarðyrkjumeistara um þann lærdóm sem formaður Samtaka iðnaðarins segir okkur geta dregið af stjórnarháttum í Rússlandi? Eða Ljósmyndarafélag Íslands, Meistarafélag í hárgreiðslu, Félga húsgagna- og innréttingaframleiðenda eða þá Meistarafélag byggingarmanna á Norðurlandi. Vilja Tannsmíðafélag Íslands og Meistarafélag bólstrara ganga þann veg sem formaður Samtaka iðnaðarins ráðleggur okkur að fara? Hvað segja stjórnendur Norðlenska, Dýrfinnu Torfadóttur, Bakarameistarans ehf, Kjörís ehf eða Genís ehf um framlag formannsins til samfélagsumræðunnar?

Helga Magnússyni hefur á stuttum tekist að leiða Samtök iðnaðarins inn á brautir sem ekki yrði látið átölulaust í nokkru siðuðu landi.

Eftir daginn í dag á Helgi Magnússon aðeins einn kost í stöðunni og hann er sá að segja sig nú þegar frá forystu hjá Samtökum iðnaðarins.

Ef Samtök iðnaðarins vilja láta taka sig alvarlega eftir daginn í dag eiga þau aðeins einn kost í stöðunni og hann er sá að losa sig undan forystu Helga Magnússonar.

Spurningin er aðeins sú hvor hefur vitið til að vera á undan.