Þau eru fjölmörg dæmin um að menn missi tökin á tilverunni eftir að hafa verið of lengi við völd. Þá er nánast eins og það snappi eitthvað í toppstykkinu, jarðsambandið hverfur og sýndarveruleiki tekur við af hinum raunverulega. Við höfum séð þetta gerast hér á landi oftar en einu sinni og erum enn að horfa upp á slíkt fyrir augum okkar. Gott dæmi um þetta er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Dæmið lítur svona út í mjö stuttu máli:
- Á Íslandi varð nánast fullkomið efnahagslegt, siðferðilegt og pólitískt hrun haustið 2008.
- Sett var á fót sérstök rannsóknarnefnd sem fékk það hlutverk að rannsaka hvernig það gat gerst sem hér gerðist og leiddi til hrunsins.
- Rannsóknarnefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu þar sem upplýst var um gríðarlega spillingu í stjórnkerfinu sem hafði grafið sig inn í alla stjórnmálaflokka á Alþingi utan einn og stjórnmálamenn voru uppvísir að stórkostlegum afglöpum í starfi. Sumir þeirra eru enn á þingi og einn reyndar fyrir dómi.
- Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að forseti Íslands hefði tekið virkan þátt í veisluglaumi útrásarinnar, greitt götu víkinganna sem rændu þjóðinni öllum fjármunum sínum og dásamað allt og alla sem orsökuðu hrunið mikla á endanum (bls. 170-178)
- Í kjölfar skýrslunnar óskar forsætisráðherra landsins góðfúslega eftir upplýsingum frá forsetanum um hvernig hann ætli sér að bregðast við því sem miður fór hjá honum.
- Forsetinn móðgast og segir að það komi engum við hvað hann geri eða hvernig/hvort hann hyggist taka á því sem að honum snýr vegna hrunsins. Hann á það reyndar sameiginlegt með öðrum hrunverjum að neita því að eiga nokkurn þátt í neinu misjöfnu hvað það varðar.
- Forsetinn gengur lengra of fer nú fram á það að Alþingi skili honum aftur þeim fjármunum sem honum var gert að spara vegna hrunsins og bæti að auki við háum upphæðum svo hann geti tekið upp við fyrri iðju sína, veisluhöld og glasaglaum á Bessastöðum. (frumvarp til fjárlaga bls. 238 og 239).
Það bendir of margt til þess að forsetinn hafi nú endanlega snappað og honum sé ekki lengur sjálfrátt. Hann undanskilur sjálfan sig frá því að takast á við erfiðleikana sem þjóðin er að fást við, neitar að horfast í augu við eigin mistök og hann hafnar allri ábyrgð á orsök og afleiðingum hrunsins.
Forsetinn rífur kjaft og hæðist að þjóðinni sem dag hvern fær að finna fyrir afleiðingum hrunsins.
Forseti Íslands er ekki lengur það sameiningartákn sem þjóðin þarf á að halda.
Hann er friðarspillir sem íslensk þjóð á langt því frá skilið að hafa fyrir sér.