Í fréttum í gær var sagt frá því að ákveðið hafi verið að ráðast í framkvæmdir við endurnýjun hjúkrunarrýma víða um land. Fréttin hljómaði svona:
Framundan eru níu milljarða króna framkvæmdir við byggingu og endurnýjun 300 hjúkrunarrýma í tíu sveitarfélögum í landinu. Ætlunin er að skipta út fjölbýli á eldri heimilum og koma í staðinn upp fyrsta flokks aðstöðu fyrir heimilismenn og starfsfólk, segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Um er að ræða byggingu nýrra heimila í Reykjanesbæ og á Ísafirði en áður lá fyrir ákvörðun um framkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Fljótsdalshéraði, Akureyri, Borgarbyggð og Mosfellsbæ.
„Þetta verða miklar úrbætur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra sagði að framkvæmdirnar kæmu sér vel fyrir atvinnulíf á hverjum stað á þessum tíma. Íbúðalánasjóður mun lána til framkvæmdanna en Framkvæmdasjóður aldraða mun síðan greiða af lánunum af sínum tekjustofni en landsmenn greiða sjóðinum nefskatt á ári hverju.
Fréttin hefði hinsvegar getað verið þessi ef hægrimenn væru við völd:
Framundan eru nítján milljarða króna framkvæmdir við byggingu og endurnýjun 300 hjúkrunarrýma í tíu sveitarfélögum í landinu. Ætlunin er að skipta út fjölbýli á eldri heimilum og koma í staðinn upp fyrsta flokks aðstöðu fyrir heimilismenn og starfsfólk, segir Græðir Gullormur, fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins. Um er að ræða byggingu nýrra heimila í Reykjanesbæ og á Ísafirði en áður lá fyrir ákvörðun um framkvæmdir í Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Fljótsdalshéraði, Akureyri, Borgarbyggð og Mosfellsbæ.
„Þetta verða miklar úrbætur,“ sagði Græðir Gullormur fjármálaráðherra og bætti því við að framkvæmdirnar kæmu sér vel fyrir atvinnulíf á hverjum stað á þessum tíma. Samið hefur verið við Sjálfstæða aðalverktaka um framkvæmdina en framkvæmdastjóri þess og aðaleigandi þess er Styrkur Spillir fyrrverandi þingmaður Flokksins. Að sögn Styrks Spillis skiptir þessi framkvæmd miklu máli fyrir fyrirtækið sem sér nú fram á bjartari tíma en talsverður samdráttur hafði verið í starfsemi þess eftir að framkvæmdum við nýtt sjúkrahús lauk. Hvorugt verkanna var boðið út sem var talsvert gagnrýnt en af ástæðulausu að sögn talsmanna Flokksins enda fáir betri til slíkra verka en Styrkur Spillir eins og fjölmörg dæmi sanna. Væntanlegir heimilismenn á hinum nýju rýmum munu greiða ¾ hluta kostnaðar með elli- örorku, - og öðrum almennum lífeyrirsgreiðslum sínum sem er hluti af samningnum á milli Flokksins og Sjálfstæðra aðalverktaka.