Samkvæmt skoðanakönnun vilja 40% landsmanna að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði næsti formaður sjálfstæðisflokksins. Næstur á óskalistanum er núverandi formaður Bjarni Benediktsson með 11%, síðan Kristján Þór með 7,6% og lestina rekur síðan Guðlaugur Þór Guðlaugsson með 1,9% stuðning þjóðarinnar.
Þetta er merkilegur listi. Líklega er Hanna Birna sú sem kemst næst því að teljast hafa hreina pólitíska fortíð, þ.e. fyrir þá sem líta framhjá því tímabili sem sjálfstæðismenn voru í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur með framsókn sem að lokum sprakk vegna hneykslismála. Bjarni Benediktsson er umvafinn ýmsum vafasömum málum tengdum hruninu og afleiðingum þess eins og allir vita. Þeir félagar Kristján Þór og Guðlaugur Þór eru í hópi þeirra sem enn neita að upplýsa um hverjir styrktu þá fjárhagslega til þings og sá síðarnefndi er reyndar með á baki landsfundarályktun um að segja sig frá þingstörfum af þeim sökum.
Það verður því tæplega annað sagt en að sjálfstæðismönnum sé boðið upp á syndum hlaðna valkosti þegar kosið verðum um nýjan formann flokksins í haust.