Ég velti því fyrir mér hvort ráðgjafar Geirs H Haarde séu við það að tapa glórunni. Hver upp á koman af annarri bendir til þess að ekki sé allt með felldu hjá þeim sem leggja línurnar fyrir Geir því tæplega getur það verið hann sjálfur sem spilar svona illa úr stöðu sinni. Eða hvað? Málatilbúnaður Geirs sem sakbornings fyrir Landsdómi snýst fyrst og fremst um að reyna að koma sér undan því að takast á við ákærurnar sem á hann eru bornar. Í stað þess er barist um á hæl og hnakka við að ónýta málið á tæknilegum atriðum með það að markmiði að forða forsætisráðherra hrunsins frá því að standa frammi fyrir ábyrgð sinni. Hver verður þá staðan ef Landsdómur vísar málinu frá eins og Geir krefst að gert verði? Erum við þá aftur komin á byrjunarreit? Verður þá engin stjórnmálamaður látin axla ábyrgð á því sem hér gerðist? Samþykkjum við það þá að stjórnmálin séu saklaus af þeim ósköpum öllum? Höfum við þá lúffað enn á ný þegar kemur að því að gera þá sem leika aðalhlutverkin ábyrga. Ekki hafa þeir boðist til þess sjálfir, svo mikið er víst. Sitjum við þá uppi með það að íslenskur almenningur mun enn og aftur bera einn raunverulega ábyrgð á axarsköftum annarra en þeir sem ábyrgir eru verða stikkfrí? Var það uppleggið? Var þjóðin að biðja um það veturinn 2008-2009?
Og nú kemur Geri H Haarde, þessi fyrrum ábyrgðarmaður ríkisstjórnar hrunsins fram í erlendum fjölmiðlum og segist fyrirverða sig fyrir Alþingi íslendinga. Hversvegna? Jú, vegna þess að Alþingi ákvað að vísa til ábyrgðar hans. Þess vegna fyrirverður Geir H Haarde sig fyrir Alþingi. Ekki vegna þess að þingið (með undantekningum þó) samþykkti hverja efnahags vitleysuna af annarri undir forystu sjálfstæðisflokksins árum og áratugum saman sem að lokum leiddi til þeirra hörmunga sem við öll þekkjum. Nei, heldur vegna þess að þingið ákvað að láta hann sem forystumann ríkisstjórnarinnar, axla ábyrgð. Þetta er stórmannlegt eða hitt þó heldur.
Ég freistast þó til að álykta sem svo að Geir sjálfur ráði ekki einn för, heldur séu það ráðgjafar hans sem hljóta að vera missa glóruna.
Það kæmi mér ekki á óvart næsti leikur verði að blása til samstöðufundar í Hörpunni líkt og gert var fyrr á þessu ári. Klappliðið úr stétt stjórnmála- og viðskiptamanna mun örugglega ekki láta sig vanta á slíka samkomu frekar en fyrri daginn og standa vörð um sinn mann.
Fram í rauðan dauðann mun það lið forða sér og sínum líkum undan ábyrgð.