Haustið 2008 og fram yfir áramót 2009, reyndu íslensk stjórnvöld að ná samningum við Breta og Hollendinga um Icesave-ósómann sem fjármálasnillingarnir í Landsbankanum settu á fót. „Það hefur enginn íslenskur ráðamaður haldið því fram að við myndum ekki standa við skuldbindingar okkar út á við,“ sagði þáverandi forsætisráðherra Geir H Haarde um það mál í Fréttablaðinu 11. október 2008. Fljótlega eftir það lágu fyrir samningsdrög þar sem íslensk stjórnvöld lýstu sig tilbúin til að skrifa upp á skuldabréf til 10 ára fyrir allri Icesave-dellunni upp á 6,7% vexti, fyrsta afborgun innan fárra mánaða. Sem betur fór varð það nú aldrei.
Sumarið 2009 lá fyrir samningur sem hljóðaði upp á allt önnur bítti sem allir vita hver voru og óþarfi að rekja hér frekar. Eitt stærsta atriðið í honum sem þó fékk aldrei nægjanlega umfjöllun, var að það tókst að semja um að greiða skuldina með eignum Landsbankans; þetta var kallað Landsbanka leið. Þetta var aldrei inn í myndinni á fyrri stigum málsins en átti eftir að hafa mikil áhrif á framgang þess. Á á fyrri stigum höfnuðu Bretar þessum hugmyndum. Samningurinn sem gerður var vorið 2009 kom Íslandi í efnahagslegt skjól sem varð okkur nánast lífsnauðsynlegt á þessum tíma. Sá samningur opnaði fyrstu glufurnar í samskiptum okkar við erlend ríki sem þá voru við frostmark. Samningurinn var forsenda þess að Ísland var tekið af hryðjuverkalista og sá samingur gat hleypt þrótti í efnahagslífið sem var við það að deyja drottni sínum. En mikilvægast af öllu var að sá samningur markaði nýja leið við að losa skattgreiðendur undan því að greiða skuldir óráðssíumannanna í Landsbankanum, einkavinum og fjárhagslegu baklandi Sjálfstæðisflokksins. Nú liggur fyrir að Landsbankaleiðin greiðir Icesave pakkann að fullu. Það var leiðin sem var opnuð með samningunum 2009. Það er gott að hugsa um núna. Mér datt þetta svona í hug þegar ég las þessa frétt.