Ég kalla það aumingjavæðingu þegar forystumenn sveitarfélaga fara fram með þeim hætti sem Árni Sigfússon og Ásmunundur Friðriksson bæjarstjórar hafa gert. Þetta á ekki síður við um suma þingmenn sjálfstæðisflokksins. Aumingjavæðingin felst í því að tala stöðugt niður til íbúana líkt og um ósjálfbjarga hóp fólks sé að ræða. Aumingjavæðingin felst í því að reyna að telja fólki trú um að það geti ekki bjargað sér sjálft, heldur verði hjálpin að koma annarsstaðar frá og frá þeim sem betur vita. Aumingjavæðingin felst í því hamra stöðugt inn hjá íbúunum að stjórnvöld vilji þeim illt, líta þá hornauga, telji þá bagga á samfélaginu og lítilsgilda. Aumingjavæðing þeirra Árna og Ásmundar felst í því að dreifa athyglinni frá eigin afglöpum og beina skiljanlegum vonbrigðum með erfitt ástand á svæðinu í aðra átt.
Íbúar á Reykjanesi eru engir aumingjar. Þar býr harðdulegt fólk sem á það ekki skilið að talað sé niður til þeirra með þeim hætti sem þeir félagar Árni og Ámundur hafa gert. Það er því hárrétt sem Eygló Harðardóttir segir í pistli sínum um nauðsyn frekari samvinnu um lausn mála á svæðinu frekar en það sem þeir félagar hafa boðið upp á í þeim efnum.
Þeir Árni og Ásmundur voru valdir til forystu af íbúum svæðisins. Þeir eru talsmenn íbúanna. Það er á þá treyst í erfiðum aðstæðum.
Er til of mikils mælst að þeir standi sig í stykkinu?