Á sínum tíma var sett á fót sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að rannsaka aðdraganda hrunsins sem skall á þjóðinni haustið 2008. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar var síðan birt í apríl á síðasta ári og vakti gríðarlega athygli. Skýrslan leiddi í ljós skipulagða fjárplógsstarfsemi íslenskra viðskiptamanna og ótrúlega spillingu í íslensku viðskiptalífi. Skýrslan sýndi einnig að um tiltölulega fáa aðila var að ræða eins og við vissum reyndar flest. Þetta var einsleitur hópur hvítra, íslenskra, miðaldra, heimskra karla sem virtust láta sér í léttu rúmi liggja hvaðan auður þeirra kæmi, svo framarlega sem hann skilaði sér í hús. Sem hann gerði. Rannsóknarskýrslan leiddi líka í ljós gríðarlega spillingu í íslenskum stjórnmálum. Mest þó í þeim tveim flokkum sem lengst af hafa farið með völd hér á landi, sjálfstæðisflokki og framsóknarflokki. Fæstum kom á óvart að þessir flokkar tengdust íslensku viðskiptalífi og allir vissu að stjórnmál þeirra snérust oftar en ekki um að hygla sér og sínum. Þetta vissum við öll. En okkur var þó brugðið þegar þetta blasti allt við okkur, svar á hvítu á síðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þinmenn hrökkluðustu af þingi og úr embættum undan spillingunni. Sumir tímabundið, aðrir til frambúðar. Embættismaður sjálfstæðisflokksins var verður brottrækur af sömu sökum. Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís af svo ofsalegri spillingu, fjármálaspillingu og pólitískri spillingu að eins mátti búast við því að flokkurinn myndi líða undir lok. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar dró það fram að það var ekki aðeins stefna flokksins sem leiddi til þeirra erfiðleika sem íslenska þjóðin hefur verið að glíma við, heldur flokkurinn sjálfur, innyflin sjálf, forystufólkið sjálft, þingmennirnir, ráðherrarnir, formennirnir og nánast allir þeir sem unnu að framgangi hans.
Það vekur því furðu að nú rúmum tveim árum eftir að Rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni á orsökum og aðdraganda efnahagshrunsins, skuli sjálfstæðisflokkurinn nú vera með hátt í 40% fylgi meðal þjóðarinnar.
Kannski verður einhverntímann sett á fót rannsóknarnefnd til rannsaka hvernig það getur gerst að jafn dauðasekur stjórnmálaflokkur og sjálfstæðisflokkurinn er getur öðlast slíkt fylgi meðal þjóðar sem hann hefur kvalið jafn mikið og þá íslensku.