Sjómannadagurinn verður haldin hátíðlegur um land allt um helgina. Reyndar er það orðið þannig að víða er öll helgina tekin undir hátíðarhöldin og þau orðin viðameiri en áður. Þó svo að sjómannadagurinn hafi ekki verið lögskyldaður frídagur sjómanna framan af og því ekki allir sjómenn heima þá var dagsins minnst með ýmsum þeim hætti sem enn er gert. Við strákarnir sem ólumst upp á bryggjunni í Ólafsfirði tókum þennan dag með sérstöku trompi, gengust jafnvel upp í því að vera spariklæddir fram undir hádegi, fórum í skrúðgöngu og þeir hörðustu jafnvel í sjómannadags messu. Ég var svo heppinn að eiga fyrirmynd í góðum föður, sjómanni, sem ég leit mikið upp til. Saman fórum við í messu á sjómannadaginn þegar hann var í landi. Það var eiginlega í einu skiptin sem ég þá stráklingur, fann til minnkunar fyrir pabba gamla. Hann átti það nefnilega til að sofna mjög fljótt í messu og í kjölfar all myndarlegra hrotukasta beindust ásakandi augngotur annarra kirkjugesta að okkur feðgum. Pabbi með höfuðið annaðhvort niður í bringu eða út á hlið og ég að reyna að halda honum vakandi með því að hnippa í hann. En kannski vakti þetta enga sérstaka athygli annarra þó ég héldi það þá. Líklega sofnuðu þeir flestir sjómennirnir í sjómannadagsmessunni, nýkomnir í land, syfjaðir og þreyttir og líklega voru fleiri en ég í hnippingum við feður sína.
Sjómannadagslærið og heimatilbúni ísinn, reiptogið, róðurinn, koddaslagurinn og björgunarsundið, ásamt öðrum hefðbundnum upp á komum sjómannadagsins hafa síðan í sameiningu náð að sveipa minninguna um sjómannadaginn í Ólafsfirði þeim ljóma sem hann á skilið og enginn fær breytt.
Myndin hér að ofan er af bátsmannsvaktinni á Kleifaberginu á landleið fyirr tveim árum eða svo. Engir aumingjar þar.