Gunnar Smári Egilsson er nýr formaður SÁÁ, samtaka áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann. SÁÁ eru mikilvæg samtök sem hafa hjálpað mörg þúsund íslendingum að takast á við vímuefnafíkn og öðlast eðlilegt líf eftir að hafa orðið undir við fíknina. Þórarinn Tyrfingsson, forveri Gunnars Smára, var og er nokkurskonar táknmynd SÁÁ enda forystumaður þeirra í langan tíma og í hópi þeirra sem ruddu brautina á þessum vettvangi fyrir margt löngu. Þórarinn hefur fyrir það öðlast þá virðingu og viðurkenningu meðal þjóðarinnar sem hann á skilið. Eins og gengur hefur hann stundum þótt ganga fram af mikilli hörku og óbilgirni fyrir málstaðinn en kannski hefur þess líka þurft, sérstaklega á árdögum þeirra.
Nýi formaðurinn virðist ætla að fara aðrar leiðir en forverinn og velur það að taka harða pólitíska afstöðu gegn ríkisstjórninni, líklega í krafti og umboði sinnar nýju stöðu þó það sé ekki alveg ljóst. Í viðtali á RÚV í gær sagði hann „ríkisstjórnina ekki geta tekið á neinum málum“ og það væri „ömurlegt að búa við þetta árum saman“. Þetta er nýr tónn og annar flötur en áður hefur verið í baráttu SÁÁ fyrir hag umbjóðenda sinna og verður athyglisvert að fylgjast með því hvert nýr formaður þessara góðu samtaka mun leiða hana.
Það er aftur á móti hárrétt sem nýi formaðurinn sagði að „við erum með velferðarkerfi sem enginn hefur áhuga á að borga inn í en allir eru að reyna að ná einhverju út úr.“
Það er umhugsunarvert fyrir okkur öll.