Menn eða mýs

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við nýgerðum kjarasamningum eru hreint ótrúleg. Í kjölfar efnahagshrunsins varð ein mesta lífskjaraskerðingu sem orðið hefur hér á landi á síðari tímum. Nú þegar tekst að taka fyrstu stóru skrefin í að snúa þeirri þróun við eru viðbrögð stjórnarandstöðunnar annarsvegar að hvetja til þess að reynt verði að koma í veg fyrir að kjarasamningarnir nái fram að ganga og hinsvegar að fullyrði að þær muni ekki rætast.
Þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við völdum fyrri hluta árs 2009 var ljóst að grípa þurfti til gríðarlega umfangsmikilla aðgerða í efnahagsmálum þjóðarinnar ef ekki átti verr að fara en þá var þegar orðið. Það var sömuleiðis ljóst að lífkjörin í landinu myndu ekki skána nema gripið yrði til róttækra og skynsamlegra aðgerða í efnahagsmálum. Það blasti við öllum sem á annað borð höfðu kjark til að horfast í augu við veruleikann að aðgerðirnar þyrftu ekki aðeins að vera yfirgripsmiklar og markvissar heldur og ekki síður yrðu menn að hafa kjark og úthald til að standa við þær. Að öðrum kosti yrði ekki bætt úr þeirri lífskjaraskerðingu sem hruni framkallaði. Flest okkar sem að þessu verki komu gerðum okkur grein fyrir alvarleika málsins og nauðsyn þess að skapa sem fyrst svigrúm til að bæta kjör launafólks og heimila í landinu.
Nú erum við sem þjóð að uppskera árangur af því sem á undan er gengið í aðhaldi og endurskipulagi í efnahagsmálum landsins. Það er ekki stjórnarandstöðunni að þakka né þeim sem bognuðu undan álaginu og höfðu hvorki kjarkinn né úthaldið sem þarf til að ná árangri. Aðkoma ríkisins að þeim kjarabótum sem nú hefur verið samið um hefði ekki orðið sú sama af farið hefði verið að ráðum þeirra sem ekki vildu taka á vandanum. Þeirra ráð var ávísun á lengri og dýpri kreppu hjá launafólki og heimilum í landinu.
En hver er aðkoma ríkisins



  • Ríkið greiðir nú rétt tæplega þriðju hverju krónu af vöxtum heimila vegna húsnæðiskaupa

  • Ríkið greiðir 12 milljarða í vaxtabætur til heimilanna í almennar vaxtabætur á árinu 2011

  • Ríkið greiddi 3 milljarða út í vaxtabætur um síðustu áramót til nærri 100 þúsund einstaklinga. aðrir 3 milljarðar verða greiddir út 1. ágúst.

  • Framundan eru lagabreytingar sem  tryggja réttindi launafólks við aðilaskipti á fyrirtækjum er varða launakjör, starfsskilyrði og vernd gegn uppsögnum

  • Allar bætur almannatrygginga verða hækkaðar
    Fæðingaorlofssjóður verður efldur

  • Persónuafsláttur verður hækkaður

  • Árlög framlög til menntamála verða aukin um milljarða
    Útgjöld til opinbera framkvæmda verða aukin um 13 milljarða til viðbótar því sem þegar er áætlað

  • Útgjöld til opinbera framkvæmda á árinu 2011 verða 21 milljarður

  • Atvinnutryggingargjald verður lækkað sem eykur möguleika fyrirtækja og sveitarfélaga til framkvæmda

Hér er langt frá því allt talið upp um aðkomu ríkisins að því að bæta lífskjörin í landinu eftir efnahagshrunið. Sennilega er hér um að ræða víðtækustu aðgerðir sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur ráðist í til að bæta kjör landsmanna á síðari árum. Möguleikinn til þess skapaðist vegna þess að til var fólk sem þorði að taka erfiðar ákvarðanir, framkvæma þær og hafa úthald til að fylgja þeim eftir til enda.
Hinir sem hvorki höfðu kjarkinn né úthaldið til verkanna munu sjálfsagt gjamma eitthvað áfram.