Óttinn er þekkt stjórntæki. Með því að ala á hræðslu, beita hótunum og afli öðrum til viðvörunar er hægt að reka heila þjóð til skilyrðislausrar hlýðni. Þannig er það að verða hér á Íslandi í dag. Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum áratugum haft greiðan aðgang að stjórnarráði Íslands og þannig getað hagað sínum málum að vild. Nú er það ekki lengur í boði. Flokkurinn þeirra er farin frá völdum. Fólkið í landinu rak hann frá völdum. Þess vegna grípa samtökin til óttaleiðarinnar. Þau koma í veg fyrir að fólkið í landinu fái nýja kjarasamninga. Þau hóta. Þau ala á ótta. Það er síðasta úrræðið en það hefur oft bitið. Það vita þeir. Tilgangurinn helgar meðalið.
Ábyrgðarmenn hrunsins eru á sömu braut. Þeir ógna þeim sem dirfast að tala til þeirra. Þeir hóta. Þeir ala á ótta. Þeir vara þá við sem hyggjast láta í sér heyra með því að beita afli. Búa til fordæmi öðrum til viðvörunar.
Óttaleiðin er þekkt. Hún hefur oft verið farin og hefur sjaldan verið jafn greiðfær á Íslandi og í dag. Varnirnar eru svo veikar.
En það þarf ekki að vera þannig. Við þurfum ekki að láta stjórnast af ótta eða láta berja okkur til hlýðni með hótunum frekar en við viljum. Það er í okkar höndum, okkar allra að koma í veg fyrir að samfélag ótta og hræðslu verði til upp úr því siðferðilega og efnahagslega hruni sem þeir kölluðu yfir okkur sem nú eru með svipuna á lofti.
Þess vegna er það í okkar valdi og engra annarra að koma í veg fyrir að við förum óttaleiðina inn í framtíðina.
Hvernig gerum við það?