Í dag lýstu þrír þjóðkunnir einstaklingar yfir afstöðu sinni til Icesave-málsins. Fyrst var það yfirstéttarkonan Eva Joly sem hvetur til þess að íslendingar felli samninginn og sjái svo til hvað gerist í framhaldi af því. Eva Joly var fengin hingað til lands til að aðstoða við rannsókn á hruninu og veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf við að elta uppi svikagengið sem fór ránshendi um þjóðfélagið. Það er hennar fag og í því er hún góð. Hún þarf hinsvegar ekki að búa við þau lífsskilyrði sem hljótast af því a fylgja ráðum hennar. Hún mun áfram lifa sínu lífi en hafa örugglega gaman af því að fylgjast með gangi mála hér á landi í hjáverkum.
Sá næsti var Sigurjón Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans sem tók undir með Evu Joly enda telur hann hvorki sjálfan sig né nokkurn annan ábyrgan í falli bankans sem hann stýrði í svo rækilegt þrot.
Sú þriðja var svo Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. Eins og vænta mátti af henni var yfirlýsing hennar hófstillt, rökföst og skynsöm, ólíkt þeim sem á undan henni komu.
Hún er búin að kjósa, hún sagði já eins og skynsemin býður okkur öllum að gera.
Eva Joly er í liði með Landsbankamanninum Sigurjóni Árnasyni.