Stjórnarandstaðan hneykslast á miklum kostnaði við lausn Icesave-deilunnar sem þeir hafa reynt að gera tortryggilegan á allan hátt. Gefið er í skyn að Lee Buchheit sé sérstakur sendisveinn fjármálaráðuneytisins í málinu og aðrir samninganefndarmenn gangi erinda annarra en íslensku þjóðarinnar. En hver er raunin þegar betur er að gáð?
Í byrjun árs 2010 var skipuð ný samninganefnd í Icesave-málninu. Að kröfu stjórnarandstöðunnar á þingi var Lee Buchheit, amerískur lögmaður, fenginn til að leiða nefndina enda sagður vera einn fremsti samningamaður heims. Eftir þessu hafði verið kallað í umræðum á þingi af öllum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í umræðum um málið haustið 2009. Á þetta var fallist og Buchheit ráðin til verksins. Hann féllst á að fara í málið gegn því að allir flokkar þingi styddu ráðninguna hans og hann yrði því fulltrúi alls þingsins og þar með þjóðarinnar. Stjórnarandstaðan krafðist þess sömuleiðis að skipa fulltrúa sinn og trúnaðarmann í nefndina og fékk Lárus Blöndal, virtan íslenskan lögmann í það verk. Báðir þessir menn skiptu, að mínu mati sköpum fyrir þá góðu lausn sem fengin er í málinu. Þessu til viðbótar var síðan og leitað til færustu sérfræðinga og lögmanna erlendis sem hér heima til ráðgjafar um málið svo það yrði sem best úr garði gert.
En þá rísa þeir upp, félagarnir í stjórnarandstöðunni, gagnrýna kostnaðinn sem þeir sjálfir kröfðust og gefa nánast í skyn að þeim Lee Buchheit og Lárusi Blöndal sé nánast mútað til að fylgja samningunum eftir og kynna þá fyrir almenningi. Sumir þingmenn andstöðunnar hafa jafnvel gengið svo langt að vilja banna samningamönnum að tala fyrir málinu og reynt að gera hlut þeirra á allan hátt eins tortryggilegan og mögulegt er.
Fjármálaráðherra sagði frá því á þinginu í gær að kostnaðurinn við að ná þeim samningum sem fyrir liggja hafi verið um 300 milljónir króna. Það er há tala. En henni var skilað til baka og margfalt það með góðum samningum sem kosið verður um á morgun.
Ég mun næsta mánudaginn væntanlega fá annarsvegar svar við fyrirspurn minni um kostnaðinn við einkavæðingu bankana á sínum tíma og hinsvegar nánara svar um kostnaðinn við Icesave-samninginn. Við skulum ekki gleyma því að þáverandi ríkisstjórn lagði í mikinn kostnað við að einkavæða bankana, sem er í raun ótrúlegt miðað við hvað sú aðgerð var ævintýralega misheppnuð. Við skulum gefa okkur að sá kostnaður sé álíka mikill og kostnaðurinn við Icesave-samningana (algjör ágiskun). Þá hefur þetta tvennt, einkavæðing bankanna og lausn Icesave, upphaf og endir málsins, kostað þjóðina um 600 milljónir. Þetta er beinn útlagður kostnaður vegna stjórnarandstöðunnar á Alþingi vegna málsins. Það vill nefnilega þannig til að um sömu stjórnmálaflokka er að ræða, framsókn og sjálfstæðisflokk, sem bæði einkavæddu bankanna með tilheyrandi kostnaði og afleiðingum sem þjóðin er að glíma við. Allur annar kostnaður sem þjóðin ber venga málsins er svo af allt annarri stærðargráðu.
Ef einhverjir ættu að sína auðmýkt framgöngu og umfjöllun sinni um Icesave-málið þessa dagana, ættu það að vera framsóknar- og sjálfstæðismenn.
Ef einhverjir ættu að styðja lausn málsins eins og það liggur fyrir ættu það að vera sjálfstæðis- og framsóknarmenn sem bæði kostuðu upphaf málsins og endi í víðustu merkingu.