Allt frá árinu 2008, fyrir hrun, voru íslensk stjórnvöld að leita leiða til að til að lágmarka skaðann vegna Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi. Eftir fall íslensku bankanna hafa allir núverandi og þáverandi formenn íslenskra stjórnmálaflokka lýst yfir vilja sínum til samninga. (Hreyfingin er víst ekki stjórnmálaflokkur). Þetta á við um Geir H. Haarde, Bjarna Benediktsson, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingrím J. Sigfússon, Jón Sigurðsson og Valgerði Sverrisdóttur. Þeim til viðbótar eru svo allir ráðherrar sem hafa setið í ríkisstjórn frá þessum tíma og flestir stuðningsmenn þeirra stjórna á Alþingi.
En hvað með Sigmund Davíð Gunnlaugsson? Eins og allir muna þá ákvað framsóknarflokkurinn undir forystu hins nýkjörna formanns, að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti fyrri hluta árs 2009. Á þeim tíma var verið að semja um lausn Icesave-málsins. Í verkefnaskrá þeirrar ríkisstjórnar kemur skýrt fram að til standi að semja um lausn Icesave-deilunnar. Orðrétt um það segir: „Eyða þarf óvissu sem hamlar starfsemi bankanna, svo sem samningum við kröfuhafa, innlenda og erlenda, þar með taldar kröfur vegna innstæðutrygginga.“ Það lá sem sagt fyrir að framsókn undir forystu Sigmundar Davíðs lagði blessun sína yfir fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að semja um málið og varði stjórnina vantrausti fram að kosningum vorið 2009.
Getur verið að Sigmundur Davíð hafi ekki fylgst með gangi mála á þessum tíma? Var það ekki ein af kröfum framsóknar að fá að fylgjast náið með því hvað ríkisstjórnin var að bardús í hinum ýmsu málum? Ætlar kannski einhver að halda því fram að formaðurinn hafi ekki verið upplýstur um stöðu málsins hverju sinni og hvernig samningaviðræðurnar gegnu fyrir sig – í hvað stefndi? Því á ég erfitt með að trúa.
Formaður framsóknarflokksins hafði gott tak á ríkisstjórninni og gat gripið til allra aðgerða sem hann vildi gegn henni hvenær sem honum hefði dottið það í hug. En hann gerði það ekki, þrátt fyrir að verið væri að semja um Icesave-málið með tilteknum hætti, líklegast með hans vitund og vilja.
Skrýtið?