Þess var minnst á Alþingi að nú eru rétt tvö ár liðin frá því að upp komst um risa styrki til sjálfstæðisflokksins frá stórfyrirtækjum í landinu. Það uppgötvaðist gerðist með þeim hætti að í lok mars 2009 birti Ríkisendurskoðun lögum samkvæmt úrdrátt úr ársreikningum íslenskra stjórnmálaflokka og kom þá í ljós að sjálfstæðisflokkurinn hafði þegið háa styrki frá fyrirtækjum sem stangaðist á við lög um fjármál fyrirtækja.
Í kjölfarið fór fram frekari skoðun á fjármálum sjálfstæðisflokksins og kom þá í ljós að flokkurinn hafði þegið styrki frá stórfyrirækjum upp á tugi milljóna króna. Flesta þá styrki hafði flokkurinn fengið inn á reikninga sína degi áður en ný lög um fjármál stjórnmálaflokka tóku gildi en þau lög takmörkuðu mjög heimild stjórnmálaflokka til að þiggja slíka styrki.
Svo furðulegt sem það nú kann að hljóma vildi enginn úr forystu flokksins eða starfsliði hans kannast við að hafa beðið um eða tekið við umræddum styrkjum en á endanum sté þáverandi formaður flokksins Geir H Haarde fram og tók á sig skellinn fyrir flokkinn eins og hann hefur oft gert.
Í kjölfar þessara uppljóstrana lýsti núverandi formaður flokksins því yfir að styrkirnir yrðu greiddir upp í topp, hver einasta króna, reyndar vaxtalaust á all mörgum árum.
Vegna þessara tímamóta spurði ég Ólöfu Nordal varaformann sjálfstæðisflokksins þess í gær hvernig flokknum hefur gengið að endurgreiða styrkina og upplýsti hún þá um að nú þegar hafi tvær afborganir verið greiddar til baka. Það kom hinsvegar ekki fram um hvað háar afborganir var að ræða eða hvað mikið stæði eftir að upphaflegri upphæð. Það kom heldur ekki fram í svari varaformannsins hver viðtakandi greiðslanna er en sem kunnugt er fékk flokkurinn sína stærstu styrki frá fyrirtækjum nátengdu hruninu og féllu um koll haustið 2008. Hver tekur við endurgreiðslum á styrkjum sem flokkurinn fékk frá FL-group? Tekur nýi Landsbankinn við endurgreiðslum frá sjálfstæðisflokknum eða fara aurarnir í gamla fallna bankann og bæta þannig m.a. heimturnar í þrotabúið? Kannski skilanefnd bankans geti upplýst um það?
Það er enn mörgum spurningum ósvarað um styrkja og spillingarmál sjálfstæðisflokksins, jafnt flokksins í heild sinni sem og einstakra þingmanna sem neita jafnvel enn að upplýsa um styrkveitendur sína.
Það verður gengið eftir þessu upplýsingum þar til fullnægjandi svör fást.
Wikipedia er með ágætt yfirlit yfir þetta særsta spilingarmál íslenksrar stjórnmálasögu fyrir áhugasama.