Góður fundur í Fjarðabyggð

Ég sat í gærkvöldi afar fjölmennan og góðan fund um samgöngumál í Fjarðabyggð. Á fundinum var aðallega rætt um fyrirhuguð jarðgöng milli Norðfjarðar og Eskifjarðar sem lengi hafa verið í umræðunni en minna orðið úr framkvæmdum. Í kjölfar kreppunnar varð gríðarlegur samdráttur í útgjöldum til vegamála eins og víða annarsstaðar í rekstri ríkisins. Það sést m.a. vel á því að árið fyrir hrun voru um 20 milljarðar settir í nýframkvæmdir í vegamálum en í ár fara rétt um 6 milljarðar til slíkra útgjalda. Í kjölfar efnahagshrunsins voru allar áætlanir um vegaframkvæmdir endurskoðaðar rétt eins og allt annað og erfitt hefur verið að reyna að tímasetja upphaf stærri framkvæmda eins og t.d. Norðfjarðarganga. Áætlanir gera ráð fyrir því að göngin muni kosta um 10,5 milljarða króna og til að framkvæmdin gangi eðlilega fyrir sig þurfi að veita til þess ríflega 3 milljörðum á ári frá upphafi framkvæmda þar til þeim er lokið.
Það breytir því ekki að hér er um afar mikilvægt verkefni að ræða sem samstaða er um að sé forgangsverkefni í vegamálum í NA-kjördæmi. Það er því ekki spurning um hvort af göngum verður heldur hvenær framkvæmdir hefjast. Á fundinum í gær var mikil samstaða meðal íbúa Fjarðarbyggðar um að ýta á eftir því að framkvæmdir við göngin fari af stað eins fljótt og mögulegt er.
Sjálfur þekki ég vel mikilvægi góðra samganga úr mínu gamla sveitarfélagi og þær miklu breytingar sem fylgja í kjölfar vel heppnaðra samgöngubóta. Ég hef því fullan skilning á vilja heimamanna í þessum efnum.
Eins og á öllum almennilegum fundum létu lýðskrumarar úr hópi stjórnmálamanna á sér kræla, þó það nú væri. Að þessu sinni reyndi einn slíkur að telja fundarmönnum trú um það að 10,5 milljarðar væru ekki nema 6 milljarðar, jafnvel minna þegar betur væri að gáð og annar hélt því fram að það skorti í reynd aðeins pólitískan vilja til verksins og ekkert annað. Það er því miður oft þannig þegar rætt er um stór mál sem brenna á íbúum að allt of margir eru tilbúnir til að gefa fólki falskar vonir sem ekki er hægt að standa við.
Slíkur málatilbúnaður hefur aldrei leitt til góðs og gerir það ekki heldur í þessu tilfelli.