Þegar nefndir Alþingis fá mál til umfjöllunar er venjan sú að vísa þeim til umsagnar aðila í samfélaginu sem taldir eru hafa hagsmuna að gæta eða eru að einhverju leiti taldir getað upplýst nefndarmenn um viðkomandi mál. Nefndarmenn afla sér síðan upplýsinga um málið úr ýmsum áttum, hver og einn fyrir sig og einnig sameiginlega. Á þessum gögnum til viðbótar sínu eigin mati á hverju máli fyrir sig eftir umræður sín á milli, móta nefndarmenn sér síðan skoðun á málinu og afgreiða það að lokum þannig frá sér til lokaafgreiðslu þingsins.
Þannig var það t.d. með Icesave-málið ógurlega á árinu 2009 og þannig var það með sama mál sem samþykkti var sem lög frá Alþingi í síðasta mánuði og bíður nú að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er alveg þess virði að líta aðeins yfir þau gögn sem þinginu barst um málið og urðu til þess 9 af 11 fjárlaganefndarmönnum og 70% þingmanna ákváðu styðja málið og gera það að lögum.
Fjárlaganefnd óskaði eftir umsögnum um efnahagslega þætti málsins og sömuleiðis hver lagaleg staða þess væri. Öll gögn málsins eru aðgengileg á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og á heimasíðu þingsins má sömuleiðis finna tengla á gögn frá fyrri stigum málsins sem mörg hver eru enn í fullu gildi og sjá má hér.
Hér eru dæmi um umsagnir nokkurra aðila varðandi efnahagslega þætti málsins sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum til þessa:
GAM Management:
bls. 40:„Hinsvegar er ekkert sem bendir til þess, enn sem komið er, að veruelg breyting hafi átt sér stað í hreyfanleika íslenskra ríkisborgara þar sem brottflutningur fólks á síðustu tveimur árum er ekki úr samhengi við það sem gerðist í fyrri niðursveiflum.“
bls. 45:„Samkvæmt þeim samningsdrögum sem nú liggja fyrir verður ekki annað séð en að greiðslur af samkomulaginu séu tiltölulega smáar í samhengi við aðrar þjóðhagsstærðir.“
bls. 53:„Niðurstaðan er því að núverandi skuldir íslenska ríkisins séu innan við skuldaþol þó komið sé að efri mörkum skuldsetningar.“
IFS greining:
bls 27:„Niðurstaða okkar er að nýi samningurinn breyti ekki greiðsluhæfi ríkissjóða að neinu marki nema þá helst til batnaðar í gegnum óbein áhrif s.s. betra lánshæfismat, og að það séu aðrir þættir sem vega þar mun þyngra í efnahagslegu tilliti.“
Seðlabanki Íslands:
bls. 11:„Erfitt er að meta kostnað við endurreisn íslensks atvinnulís sem rekja má til þess að ósamið hefur verið um Icesave-skuldbindinguna. Hinsvegar er líklegt að frekari tafir verði því kostnaðarsamari sem möguleikar Íslands til þess að sækja fjármagn á erlendan markað batna að öðru Leiti. Þegar við bætist að úrskurður EFTA-sómstólsins gæti fallið Íslandi í hóhag, þrátt fyrir þau rök sem komið hafa fram í innlendri umræðu, virðast vera sterk rök fyrir því að leysa deiluna um uppgjör vegna Icesave-reikninga Landsbankans.“
Samtök atvinnulífsins hafa lengi haldið því fram og fært fyrir því ágæt rök að tafir á lausn Icesave-málsins hafi skaðað íslenskt efnahags- og atvinnulíf og undir það hefur ASÍ tekið.
Þeir lögmenn sem gefið hafa álit sitt á málinu eru allir á einu máli um að lögfræðileg álitamál vegna samkomulagsins sem nú liggur fyrir sé vel úr garði gerð og tryggi stöðu Íslands sem mest má vera. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um hugsanlega niðurstöðu í dómsmáli ef málið endar í þeim farvegi en þó telja flestir að líklega niðurstaða sé sú að við verðum dæmd til að greiða það sama og samið hefur verið um. Þá stendur eftir að semja um greiðslukjör, dráttarvexti, vexti af skuldinni, lánstíma o.s.frv.
Að beiðni fjárlaganefndar settust Ragnar H Hall og samninganefndarmenn Íslands yfir þau atriði sem Ragnar hefur gagnrýnt í málinu og leystu það með þeim hætti að allir eru við það sáttir. Um það vitnar sameiginelg yfirlýsing þessara aðila.
Reyndar má segja að Samband Íslenskra sveitarfélaga sé eini umsagnaraðili málsins sem segir málið ekki hafa haft nein áhrif á stöðu sína sem mörgum kanna að hljóma undarlega í ljósi erfiðra fjárhagsstöðu sveitarfélaga.