Ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun dómara um ríflega 100 þúsund krónur á mánuði er ekki bara óheppileg, heldur algjörlega úr takti við samfélagið og nánast eins og blaut tuska í andlit íslensks launafólks. Rök Kjaradóms virðast byggjast á væli í dómurum undan óhóflegu vinnuálagi vegna fjölda mála sem dómstólum berast í kjölfar hrunsins eins og sjá má í úrskurði dómsins. Eins og fram kemur í úrskurðinum voru laun alþingismanna og ráðherra lækkuð í ársbyrjun 2009 og hafa ekki breyst síðan þá. Laun dómara og annarra embættismanna lækkuðu síðan í kjölfarið, mest hjá þeim sem hæst höfðu launin.
Álag á venjulegt launafólk, embættismenn, opinbera starfsmenn, alþingismenn svo einhverjir sé til taldir, hefur stóraukist í kjölfar hrunsins og afleiðinga þess. Þetta á við um starfsfólk í heilbrigðisgeiranum sem nú er ætlað að sinna meiri vinnu en áður á sömu eða jafnvel lægri launum. Sama á við um kennara í leik- grunn- og framhaldsskólum, starfsfólk í félagsþjónustu og aðra sem eru á hverjum degi að taka á sig aukna vinnu á sama taxta og áður. Þetta á sömuleiðis við um þingmenn sem voru lækkaðir í launum fyrir ríflega tveim árum á sama tíma og vinnuálagið á þá og starfsfólk Alþingis margfaldaðist.
Dómara barma sér undan vinnuálagi, líklega með réttu. En þeir verða eins og aðrir að þreyja Þorrann og Góuna og eru ekkert of góðir til þess.
Hitt er svo annað mál að laun opinberra starfsmanna hafa ekki bara staðið í stað að undanförnu, heldur lækkað og veruleg skil hafa orðið á milli launaþróunar hjá hinu opinbera annarsvegar og á lamennum markaði. Þetta má m.a. sjá á þessu línuriti hér, sem segir reyndar ekkert um launin sjálf heldur þróun þeirra á síðustu árum. Þarna sést vel hver áhrifin af launalækkunum hjá ríkinu hafa orðið en rétt er að benda á að sú lækkun hefur að nær öllu leiti á hæstu launum eins og til stóð að gera.