Nauðsynlegt að gleyma ekki

Ég settist smá stund niður til að horfa á Silfur Egils í dag. Hlustaði augnablik á Gunnar Smára Egilsson en nennti því svo ekki og fór að gera eitthvað skemmtilegra. En slökkti ekki á sjónvarpinu, sem ég hefði átt að gera, því skyndilega barst kunnugleg rödd Bessastaðabóndans úr viðtækinu – og ég settist aftur niður. En stóð svo fljótlega upp aftur. Þetta var eiginlega aðeins og súrrealískt til að geta setið undir því.
Mér varð hugsað til áttunda bindis Rannsóknarskýrslu Alþingis, kafla II.4 Hlutverk forseta Íslands, sem hefst á bls. 170. Í þessum kafla má m.a. finna þennan bút úr ræðu forsetans um íslensku útrásina sem hann hélt í Harvard-háskólanum tveimur árum fyrir hrun: „Rök þessara athafnamanna eru að kunnáttan sem þeir hafa fengið á hinum íslenska heimamarkaði geri þá hæfa til að keppa á stærri mörkuðum, jafnvel betur hæfa en aðra vegna þess að nálægðin og gegnsæið á hinum smáa íslenska markaði hafi verið þeim harður skóli.“
Í bók sinni Hrunið. Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar skrifað Guðni Th. Jóhannesson síðan eftirfarandi um forsetann á Bessastöðum: „Eftir hrun varð Ólafur Ragnar Grímsson einskonar holdtekja skjallsins með réttu eða röngu, en svo ákafur hafði forsetinn verið í stuðningi sínum við aukin umsvif Íslendinga erlendis að hann varð að sæta því.“
Það er ástæða til þess að renna yfir valda kafla í skýrslunni góðu af og til. Kemur í veg fyrir að hlutirnir gleymist.