Þingmenn NA-kjördæmis hafa nýtt vikuna vel heima í kjördæmi. Vikan hófst á fundahöldum með stjórn Eyþings á Akureyri á mánudaginn auk þess sem fundað ver með bæjarstjórn Akureyrar og fleiri aðilum í bænum. Um kvöldið var síðan fundað á Dalvík eins og sagt er frá hér að neðan. Þriðjudagurinn var síðan nýttur áfram á Dalvík áður en leikar bárust yfir til Fjallabyggðar,Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, þar sem farið var í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir. Síðar um kvöldið var svo góður 30 manna fundur á Siglufirði þar sem stjórnmálin voru rædd fram og til baka. Á miðvikudaginn var síðan farið til Húsavíkur þar sem þingmennirnir heimsóttu fjölda vinnustaða og stofnana yfir daginn. Um kvöldið var síðan haldin 60 manna stjórnmálafundur á Gamla Bauk þar sem heimamenn buðu upp á líflega og skemmtilega umræðu. Einn af skemmtilegri fundum ferðarinnar var hinsvegar haldin hjá Víkurraf á Húsavík þar sem þingmanna beið dekkað borð inn á miðju verkstæði, sem á voru bornar dýrindis veitingar. Virkilega vel heppnaðu, góður og málefnalegur fundur í alla staði.
Á fimmtudagsmorguninn voru þingmennirnir mættir til fundar við hina ýmsu aðila á starfssvæði SSA á Reyðarfirði og margvísleg mál. Í hádeginu var svo fundað með bæjarstjórn Fjarðabyggðar og farið yfir stöðu ýmissa mála með bæjarstjórnarfulltrúum. Síðar um daginn var síðan farið í góða heimsókn til Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað þar sem líflegar umræður áttu sér stað með starfsmönnum fyrirtækisins. Um kvöldið var svo haldin góður stjórnmálafundur á Capitano hjá Magna Kristjánssyni sem stóð fram undir miðnætti með líflegum umræðum.
Alls héldu þingmennirnir því fimm vel sótta og líflega stjórnmálafund á fjórum dögum auk fjölda vinnustaðafunda til viðbótar því að heimsækja fjöldan allan af fyrirtækjum og stofnunum í kjördæminu. Þegar upp var staðið höfðu þau Steingrímur J., Björn Valur og Þuríður Backman lagt að baki ríflega þúsund kílómetra ferðalag og var þó ekki farið um allt kjördæmið endanna á milli í þessari lotu.
Ferðalög sem þessi eru þingmönnum afar mikilvæg starfa sinna vegna til að viðhalda tengslum sínum við íbúa kjördæmisins og taka stöðuna á þeim málum sem brenna á kjósendum hverju sinni. Vonandi hafa íbúar NA-kjördæmis sömuleiðis gagn af yfirferð þingmannanna sem eiga án efa eftir að taka aðra eins rispu um kjördæmið áður en langt um líður.