Mikil átök hafa átt sér stað víða um þjóðfélagið allt frá hruni. Átökin hafa staðið á milli sérhagsmuna og þjóðarhagsmuna. Á milli þeirra sem vilja verja gamla Ísland og hinna sem vilja búa til betra samfélag en það sem leiddi til hrunsins. Þessi átök kristallast m.a. í þeim pólitískum áttökum sem fram fara á Alþingi um framtíðarlandið Ísland, samfélagið sem byggt verður úr rústum hrunsins og stjórnskipan íslenska lýðveldisins. Það mátti vel greina hinar pólitísku átakalínur í umræðum um stjórnlagaþing á Alþingi í gær. Þar spruttu þingmenn sjálfstæðisflokks og framsóknar skyndilega fram, gráir fyrir járnum í gamlkunnum ham gæslumanna þeirra sérhagsmuna sem þeir hafa alltaf staðið svo dyggan vörð um. Sjálfstæðismenn voru allt í einu komnir í sama gírinn og þeir voru í vorið 2009 þegar þeir tóku þingið í gíslingu til að koma í veg fyrir að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni sem tryggðu þjóðinni ótvíræð yfirráð yfir auðlindum sínum. Og framsókn lét sig hafa það að fylgja sínum gömlu herrum sem reyndust þeim svo vel í 12 ára stjórnarsamstarfi þegar þeir skiptu Íslandi á milli sín og stuðningsmanna sinna. Pólitísku línurnar urðu á allt í einu og örskammri stundu skarpari en þær hafa lengi verið og hin pólitíska liðskipan blasti við skýr og greinileg. Í öðru liðinu þeir sem eru að reyna að byggja upp nýtt land úr hruni sem hitt liðið ber ábyrgð á. Í öðru liðinu þeir sem vilja ekki breytingar heldur halda fast í gamlar og úreltar leikreglur og í hinu liðinu þeir sem vilja að þjóðin fái bein áhrif við mótun nýrrar stjórnarskrá sem ætlað er að vísa okkur veginn til framtíðar. Stjórn og stjórnarandstaða ekki aðeins í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur þjóð og þjóðarandstaða. Hægri og vinstri hafa að nýju opinberast í íslenskum stjórnmálum og nú skýrar en oftast áður.
En orustan um Ísland á sér ekki eingöngu stað í hinum pólitísku vígstöðum frekar en áður. Um það vitnar dómur Hæstaréttar um stjórnlagaþingið í gær.
En þeir sem fögnuðu sigri í dag ættu að halda aftur af sér. Þjóðin fer enn með æðsta valdið, sem betur fer.