Farið verði að tillögum sáttanefndar

Stéttarfélög sjómanna nýta tímann á milli jóla og nýárs til fundarhalda enda er þetta eini tími ársins sem sjómenn eru flestir í landi á sama tíma. Ég sat einn slíkan fund í gær með sjómönnum í Framsýn á Húsavík þar sem málin voru reifuð frá ýmsum sjónarhornum. Mest var þó rætt um framtíðarskipan stjórna fiskveiða við landið, veiðiráðgjöf og aflaheimildir, auk afnáms sjómannaafsláttar og fleira sem snertir sjómenn. Ég sé og heyri í fréttum að sjómenn víða um land eru að ræða málin á svipuðum nótum og sömuleiðis að gerð nýrra kjarasamninga bíður handan við hornið.
Flest heildarsamtök sjómanna hafa ályktað um andstöðu sjómanna gegn hugmyndum um útleigu á aflaheimildum eins og einhverjir í stjórnmálunum hafa áhuga á að gera og sama á við um samtök útgerðarmanna. LÍÚ hefur reyndar gegnið lengra og sagt að ekki verði samið við sjómenn nema fyrirkomulag stjórna fiskveiða verði þeim að skapi.
Starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skilað í haustbyrjun niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta á þeim vattvangi eins og hópnum var falið að gera. Þar segir m.a. um megin niðurstöðu hópsins:
„Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun, aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl..“
Hér er skýrt talað og skilaboðin til ráðherra fara ekki á milli mála. Hópurinn leggur til að farin verði sk. samningaleið og gjald verði tekið fyrir nýtingu á fiskistofnun landsins sé sem auðlind, sameiginleg eign þjóðarinnar. Í þeim hópi voru fulltrúar beggja stjórnarflokka auk annarra stjórnmálaflokka á Alþingi, fulltrúar allra stéttarfélaga sjómanna, útgerða, fiskverkenda og annarra sem málið varðar með beinum hætti.
Það væri í hrópandi andstöðu við þá breiðu samstöðu sem náðist í starfshópnum um þær tillögur sem gerðar eru til úrbóta á lögum um stjórn fiskveiða, ef stjórnvöld kjósa að fara aðrar leiðir.
Til hvers var þá af stað farið í sáttarleit ef sáttinni sjálfri verður hafnað þegar henni hefur verið náð - og það af þeim sem sögðust vilja leita sátta?