Guðlaugur Þór Þórðarson fer mikinn þessa dagana og sakar forsætisráðherra um að leyna þing og þjóð upplýsingum um eitthvað sem enginn virðist vera almennilega klár á hverjar eru nema Guðlaugur sjálfur. Enda er þar vanur maður á ferð sem kann sitthvað fyrir sér um hvernig og hversvegna leyna skal upplýsingum og forða þeim undan almenningi. Engan veit ég þingmann um utan umræddan Guðlaug Þór sem er með landsfundarályktun síns eigin flokks á bakinu um að hann skuli hætta sem þingmaður flokksins. Og hversvegan ætli það sé? Jú, vegna mútugreiðsla sem þingmaðurinn þáði og komu honum til þeirra valda sem hann hafði sem ráðherra í ríkisstjórn Geir H Haarde. Jafnvel fuglunum á AMX ofbauð framganga þingmannsins á þeim vattvangi og vilja lítið af honum vita af þeim sökum. Guðlaugur Þór er reyndar ekki einn á þessum báti heldur samþykkti landsfundur sjálfstæðisflokksins einnig vantraust á einn borgarfulltrúa flokksins af sömu sökum. Þeim félögum til viðbótar neitar síðan ágætur þingmaður sjálfstæðismanna úr NA-kjördæmi að upplýsa um hverjir kostuðu hann til þings. Þar með er ég ekki að segja að þingmenn sem ekki hafa upplýst um hverjir hafa styrkt þá í framboði gangi erinda þeirra sem þá styrkja. En öll leynd er til þess fallin að vekja upp spurningar og tortryggni sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir.
En ef ég væri Guðlaugur Þór myndi ég njóta hvers þess dags sem mín væri ekki getið í fjölmiðlum í þeirri veiku von að ég hreinlega gleymdist.