Undarleg afstaða stjórnarþingmanna

Alþingi samþykkti fjárlagafrumvarp næsta árs nú í morgun, með minnsta mögulega mun, 32 atkvæðum af 63. Þrír þingmenn Vinstri grænna studdu ekki frumvarpið, hvorki einstaka liði þess að í heild sinni. Slík framganga stjórnarliða á sér ekki fordæmi og vekur upp spurningar um styrk ríkisstjórnarinnar á einum erfiðustu tímum í sögu lýðveldisins.
En hvað um það. Eins og áður segir þá studdu þau, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, þingmenn Vinstri grænna ekki frumvarpið né nokkra liði þess. Það er athyglisverð afstaða stjórnarliða að kjósa að styðja ekki einn einasta lið fjárlagafrumvarps ríkisstjórnar, að ekkert sé þar þannig að ekki megi styðja það, ekkert mál nógu gott til að hljóta brautargengi að mati þessa fólks. Jafnvel stjórnarandstaðan styður eitt og eitt mál og þverpólitísk samstaða er um mörg góð mál. Hér eru nokkur dæmi valin af handahófi yfir nokkur góð mál sem ýmist var ágæt samstaða um á þinginu eða létt hefði verið fyrir stjórnarliða að styðja: 


Tillaga um minni aðhaldskröfu á Heilbrigðisstofnana Vestmannaeyja, Þingeyinga og Sauðarkróks
Tillaga um aukið framlag til Keilis á Reykjanesi upp á 31 milljón
Tillaga um aukið framlag til Háskólasetur Vestfjarða upp á 10 milljónir
Tillaga um aukið framlag til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands upp á 10 milljónir
Tillaga um verðbætur á grunn elli- og örorkulífeyris upp á 350 milljónir
Tillaga um aukið framlag til Atvinnuleysistryggingarsjóðs upp á 180 milljónir
Tillaga um aukið framlag til Náttúrulækningafélags Íslands upp á 41 milljón
Tillaga um auknar vaxtabætur upp á 9,9 milljarða
Tillaga um auknar niðurgreiðslur til húshitunar á köldum svæðum upp á 40 milljónir
Tillaga um bólusetning á ungum stúlkum gegn leghálskrabbameini upp á 50 milljónir á næsta ári og svo áframhaldandi framlög á næstu árum
Tillaga um aukið framlag til Háskólans á Akureyri upp á 20 milljónir
Tillaga um vegaframkvæmdum á suður- vestur- og norðurlandi upp á 33 milljarða
Tillaga um niðurlagningu Varnarmálastofnunar 


Eins og á þessu sést er hér um mörg góð mál að ræða sem allir eiga að geta stutt. Einhverra hluta vegna gátu þau Atli, Ásmundur og Lilja hinsvegar ekki gert það og það verða þau að útskýra sjálf fyrir kjósendum sínum, félögum sínum í Vinstri grænum og almenningi í landinu.