Í frumvarpi til fjáraukalaga 2010 sem gert var að lögum í dag, lagði meirihluti fjárlaganefndar til að 280 milljónum króna yrði varið til að greiða atvinnulausum desemberuppbót. Slíkt hefur ekki áður verið gert og ekki búist við öðru en þingmenn greiddu þessari góðu tillög atkvæði sitt.
En það var aldeilis ekki þannig. Tillagan var samþykkt með 33 samhljóða atkvæðum meirihlutans á Alþingi en stjórnarandstaðan sat hjá eins og hann lagði sig. Þetta vekur upp spurningar um vinnulagið sem minni hlutinn á þinginu stundar sem flest helst af öllu í því að tillögur stjórnarliða séu allar vondar og ekki þess virði að styðja þær. Jafnvel þó svo þær feli í sér kjarabót fyrir þá íslendinga sem misstu vinnuna í kjölfar efnahagshrunsins. Hinsvegar stóð ekki á andstæðingum ríkisstjórnarinnar að styðja tillögu um að heimila Landbúnaðarháskóla Íslands að stofna hlutafélag um búrekstur skólans og leggja til félagsins bústofn og lausafé sem stofnfé enda litið þannig á að um einkavæðingu búrekstrar skólans sé að ræða af þeirra hálfu. En desemberuppbót atvinnulausra vildu þau ekki styðja.
Eru þetta vinnubrögðin sem kallað er eftir?
Þeir sem ekki treystu sér til að styðja tillögu meirihlutans um desemberuppbót til atvinnulausra voru sjálfstæðismennirnir Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar Kristinn Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Íris Róbertsdóttir, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Sigurður Kári Kristjánsson Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Framsóknarmennirnir voru: Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson, Höskuldur Þór Þórhallsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, Sif Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir. Enginn fulltrúi Hreyfingarinnar leyfði sér að styðja tillögu um desemberuppbót atvinnlausra eða þau Birgitta Jónsdóttir, Þór Saari og Margrét Tryggvadóttir.