Á þjóðin einhverja von með þeim?

Sama og síðast hjá íhaldinu
Í gær lagði sjálfstæðisflokkurinn fram tillögur í efnahags- og atvinnumálum sem þau kalla „Gefum heimilunum von“. Yfirskriftin gaf von um að flokkurinn væri að ná pólitískum áttum og byrjaður að hugsa til framtíðar en þegar betur var að gáð var sú von á falsrökum reist. 


Skattkerfi auðmannanna endurheimt
Til að byrja með vilja sjálfstæðismenn taka til baka þá leiðréttingu sem gerð hefur verið  á skattkerfinu og leitt hefur til þess að skattbyrðinni hefur verið færð  af þeim tekjulægstu yfir á þá sem meira bera úr bítum. Þá vill flokkurinn hætta að rukka auðlegðarskatt af auðönnum. Er þar um að ræða sérstakan lágan skatt sem lagður er á hreinar eignir yfir 120 milljónir, eignum sem stjórnvöld björguðu með neyðarlögunum svokölluðu og skilar nú þjóðinni talsverðum tekjum til baka fyrir það viðvik. Sjálfstæðismenn vilja hverfa frá því að stórfyrirtæki leggi sitt af mörkum til að byggja samfélagið upp úr hruninu og hverfa aftur til þess flata ónýta skattkerfis sem hann skóp með 18 ára þrotlausri setu sinni í fjármálaráðuneytinu. Það skattkerfi mismunaði íbúum þessa lands, hyglaði þeim efnameiri á kostnað þeirra sem minna báru úr bítum og kom síðar í ljós að var algjörlega ótækt til að taka á móti hruninu þegar á það reyndi. 


Einkavæðing velferðarkerfisins
Og sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram á þeirri einkavæðingarbraut sem hann var á í 18 ár með skelfilegum afleiðingum. Nú vill flokkurinn ganga lengra í einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og þótti nú einhverjum nóg um það sem á undan er gengið í þeim efnum. Nú kallast það að „auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila og byggja í auknum mæli á samkeppni um þá þjónustu sem veita þarf“ eins og segir í nýjum tillögum sjálfstæðisflokksins. Sömu áherslur eru í tillögum flokksins í menntamálum þar sem fram kemur að þar sé „rétt að byggja á valfrelsi nemenda og foreldra, fjölbreytni og sveigjanleika“. Jafnvel sjálfstæðisflokkurinn getur ekki orðað þetta skýrar. Flokkurinn leggur til að leiðin út úr kreppunni sem hann framkallaði sé að einkavæða heilbrigðis- og menntakerfið.
Sjálfstæðismenn taka ekki undir fyrirhugaðar aðgerðir til aðstoðar skuldugum heimilum sem þeir hafa þó tekið þátt í að skapa. Þess í stað  leggur flokkurinn nú til að lengt verði í lánum skuldara með tilheyrandi kostnaði og óvissu um þau mál inn í framtíðina. Um leið vilja sjálfstæðismenn grípa til aðgerða til að „auka samkeppni á íbúðalánamarkaði“ eins og það heitir.Það hlýtur að fara hrollur um þá sem minnast áhlaups ný-einkavæddu bankanna á Íbúðalánasjóð fyrir ekki svo mörgum árum. Bankarnir sem sjálfstæðisflokkurinn afhenti vildarvinum sínum réðust þá inn á fasteignamarkaðinn í nafni „aukinnar samkeppni á íbúðalánamarkaði“ með það að markmiði að fella Íbúðalánasjóð og taka þar með fasteignalán almennings í landinu yfir. Hvar værum við stödd í dag það hefði gengið eftir? 


Smá von - en svo …
Afleiðing 18 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins var efnahagshruns sem þurkaði 15 – 20.000 störf út í einni svipan með tilheyrandi atvinnuleysi og hörmungum. Sjálfstæðismenn vilja bæta fyrir þetta og segja að „skapa“ þurfi 22.000 ný störf á næstu þrem árum.
En hvernig ætla þeir að framkvæma þetta? Jú, mínir menn segja nú allt í einu að „megnið af þeim störfum sem þurfa að verða til eru í litlum og meðalstórum fyrirtækjum“. Þetta hljóta að vera hægrimönnum ný tíðindi, þeim hinna sömu sem hafa hrópað á stórar lausnir, risaverksmiðjur og Mega Wött í áður óþekktum stærðum þegar kemur að því að sigrast á atvinnuleysinu. Þetta eru hinsvegar ekki nýjar fréttir fyrir okkur hin sem höfum viljað byggja atvinnulífið upp með þessum hætti. En svo fara þeir reyndar í gamla stóriðjugírinn sem hefur reynst okkur svo vel og henda fram störfum í þúsunda vís á bæði borð. Helguvík er þar efst á blaði og látið í það skína að aðeins þurfi viljan til verksins, allt annað sé klappað og klárt. Sama er uppi á teningnum hjá þeim varðandi Bakka við Húsavík. Allt er þetta þó með öðrum hætti eins og þeir vita sem vilja. Af hálfu stjórnvalda var því heitið við gerð stöðugleikasáttmálans á síðasta ári að engar hindranir yrðu í vegi verkefnisins af þeirra hálfu og við það hefur að fullu verið staðið. Önnur og erfiðari mál hafa staðið í vegi þess verkefnis, t.d. orkuöflun og fjármögnun sem ekki síst hefur strandað á óleystum deilumálum Íslands við aðrar þjóðir sem fæstir vilja vita af. Allir vita að „orkufrekt verkefni að Bakka og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir“ eins og það heitir í tillögum sjálfstæðisflokksins er ekki eitthvað sem gerist á morgun eða hinn og ekki einu sinni á næsta ári eða því þar næsta. Það vita það sömuleiðis þeir sem vilja að þar er vitlegast að líta til fleiri verkefni í stað þess að nýta alla orkuna í eina stóra bræðslu. Nú þegar er unnið að orkunýtingu á svæðinu á þeim grunni og í samstarfi stjórnvalda og heimamanna.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur einnig til stórauknar þorskveiðar sem lausn í atvinnumálum. Hver er framtíðarsýnin í þeirri tillögu?
Marg fleira mætti nefna í tillögum sjálfstæðisflokksins sem vert er að gera athugasemdir við. Þeir tala um að „lagalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum verði eytt“. Hvað þýðir það? Að skapa verði lagalegt umhverfi fyrir erlenda aðila til að ná yfirráðum yfir auðlindum landsins og orkufyrirtækjum? Ef svo er þá eru sjálfstæðismenn á sömu röngu brautinni og þeir hafa verið hingað til hvað þetta varðar og reyndar fleira.


Þó ekki alslæmt …
Það er þó ekki þannig að allar tillögur sjálfstæðisflokksins séu alslæmar. Sem fyrr segir eru sumar tillögur þeirra í atvinnumálum ekki svo galnar. Þá styðja sjálfstæðismenn líka breytingar á gjaldþrotalögum sem lagðar hafa verið fram á Alþingi en gera sér jafnframt grein fyrir því að þær munu ekki leysa allan vanda eins og haldið hefur verið fram. Þeir taka sömuleiðis undir hugmyndir um breytingar á húsnæðismálakerfinu sem formaður Vinstri grænna hefur viðrað. Að auki leggja þeir áherslu á samstöðu stjórnmálaflokka við lausn þeirra erfiðu mála sem blasa við okkur öllum eftir hrunið mikla.
Vonbrigðin með þetta nýja útspil þeirra eru þó fyrst og fremst þau að flokkurinn sem skóp hrunið virðist ekki hafa skipt um stefnu í efnahags- og atvinnumálum. Megin áherslan er sem fyrr áhersla á stórkarlalegar lausnir í atvinnumálum sem fyrir löngu eru fullreyndar án árangurs. Enn og aftur er lagt upp með að leysa vandann í heilbrigðis- og menntamálum með aukinni einkavæðingu. Man einhver eftir dæmum um að slíkt hafi heppnast sérlega vel að undanförnu eða orðið þjóðinni til farsældar?
Það er áhyggjuefni þegar flokkur eins og sjálfstæðisflokkurinn með alla sína sögu í íslenskum stjórnmálum stígur enn og aftur fram á hið pólitíska svið, nú undir nýrri forystu - en með sömu gömlu tillögurnar í farteskinu. Maður ætlast einhvernvegin til meira af þeim flokki rétt eins og maður ætlast til að Liverpúl sé í toppbaráttunni þó maður haldi ekki með liðinu. Hvorutveggja hefur valdið vonbrigðum.