Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ hélt ræðu á aðalfundi samtakana í gær sem vakið hefur talsverða athygli. Reyndar var ræðan ekkert sérstaklega yfirgripsmikil heldur fjallað fyrst og fremst um samskipti LÍÚ og stjórnvalda og hvernig stjórna ætti fiskveiðum. Það er svo sem gott og gilt enda af nægu að taka á þeim vettvangi. Yfirbragð ræðunnar var hinsvegar allt á þann veg að verið væri að rústa sjávarútveginum eða rússtissu, eins og Kristján Þór Júlíusson myndi vafalaust orða það. Það er svo sem engin ný frétt að forysta LÍÚ stilli málum þannig upp að minnstu breytingar á stjórn fiskveiða muni leggja íslenskan sjávarútveg í eyði. Það er nú einu sinni þannig að LÍÚ eru hagsmunasamtök útgerðarinnar í landinu og bregðast við sem slík rétt eins og hverjir aðrir í sömu stöðu þegar hreyft er við málum sem að þeim snúa. Ég hef engar áhyggjur af því og geri ekki athugasemdir við slíkt en tek viðbrögðunum í þessu ljósi.
En hvernig er þá staðan gagnvart sjávarútveginum í dag? Fyrir rúmu ári skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp til að fara yfir stöðu íslensks sjávarútvegs, greina álitaefnin sem þar hafa verið uppi, gera tillögur til úrbóta og leggja fram hugmyndir um framtíðarskipan þessa mikilvæga málaflokks. Þetta gerði hópurinn, lengst af án LÍÚ sem vildu ekki vera með en komu þó að borðinu aftur undir lok vinnunnar. Niðurstöður hópsins eru skýrar og mikil samstaða var um þær tillögur og úrbætur sem hópurinn lagði til. Starfshópurinn skilaði ráðherra niðurstöðum sínum í ítarlegri skýrslu fyrir tæpum tveim mánuðum og ætlaðist til þess að á grunni þeirrar skýrslu lagt fram nýtt lagafrumvarp á Alþingi um stjórn fiskveiða.
En hefur ekkert komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar sem bendir til nokkurs annars en að þannig verði málum háttað, þ.e. að búast megi við frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða byggðu á þeirri yfirgripsmiklu vinnu sem starfshópurinn lagði til. Málið er því í þeim farvegi sem ætlast var til af starfshópnum, þ.á m. LÍÚ og því dálítið undarlegt að formaður samtakana skuli eyða svona miklu púðir í málið í ræðu sinni.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra um útleigu á aflaheimildum hafa truflað LÍÚ menn eins og fleiri í sjávarútveginum enda eru þær úr takt við það sem lagt var til af hálfu starfshópsins. Viðbrögðin við þeim yfirlýsingum eru hinsvegar allt of yfirdrifin og úr samhengi við tilefnið. Hugmyndir ráðherra hafa ekki verið ræddar í ríkisstjórn eða þingflokkum svo ég viti og því síður að væntanlegt lagafrumvarp í þá veru hafi verið kynnt eða lagt fram. Enda held ég að það yrði meira en lítið furðulegt ef þær hugmyndir fengju stuðning í stjórnarflokkunum eða á Alþingi eftir þá vinnu sem lagt hefur verið og vísar okkur í aðra átt.
Ég deili því ekki áhyggjum Adolfs í þessu sambandi og hvet hann og forystu LÍÚ til að vera ekki að velta sér ekki mikið upp úr þessu en snúa sér þess í stað að öðrum og alvarlegri málum sem snúa að sjávarútveginum.