Það er stundum gaman að velta því fyrir sér hvað hefði og hvað ekki miðað við gefnar forsendur hverju sinni. Hver væri t.d. Seðlabankastjóri í dag ef þjóðin hefði ekki ákveðið að skipta um ríkisstjórn í fyrra? Hver væri yfir fjármálaeftirlitinu sem brást landsmönnum svo illilega og með svo miklum afleiðingum? Hvernig væri rannsóknum hagað vegna framgöngu útrásarvíkinga og spilltra fjársýslumanna gróðæristímabilsins ef ekki hefði verið skipt um ríkisstjórn? Hefði verið leitað eftir aðstoð erlendis frá vegna efnahagshrunsins líkt og núverandi stjórnvöld hafa gert ef þau gömlu væru enn í stjórnarráðinu? Myndi einhver íslendingur vita hver Eva Joly væri ef ekki hefði komið til stjórnarskipta? Hvernig hefði verið unnið úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ef sama gamla ríkisstjórnin væri enn við völd? Hefði Alþingi ákveðið að kalla Landsdóm saman til að fara yfir embættisfærslur fyrrum ábyrgðarmanns ríkisstjórnar hrunsins ef ekki hefði verið skipt um ríkisstjórn?
Og hvað ætli Baldur Guðlaugsson fyrrverandi ráðuneytisstjóri væri að gera í dag ef vinstrimenn hefðu ekki tekið við ráðuneytinu úr hendi sjálfstæðisflokksins? Væri hann enn ráðuneytisstjóri? Ætli þessi frétt hefði orðið til ef ekki hefði komið til stjórnarskipta í kjölfar hrunsins?
Veit ekki en efast um það. Það er gaman að velta þessu fyrir sér.