Umræðan um fjárlagafrumvarpið hefur verið á köflum talsvert sérstök. Stundum mætti halda að frumvarpið hafi komið öllum í algjörlega opna skjöldu, rétt eins og það hafi dottið af himnum ofan. Það er nú öðru nær. Í því sambandi er ágætt að velta því fyrir sér hvernig fjárlagafrumvarp verður til.
Í grófum dráttum gerist það með þessum hætt, t.d. varðandi fjárlagafrumvarp næsta árs:
- Stefna stjórnvalda um ríkisfjármál er ákveðin. Hjá núverandi ríkisstjórn lá sú stefna fyrir í þingskjölum strax á síðasta ári.
- Markmið um samdrátt í útgjöldum og tekjuöflun ríkisins sett fram og rædd í þingflokkum stjórnarflokka. útlínur þessara markmið lágu sömuleiðis fyrir strax á síðasta ári hjá núverandi stjórnvöldum.
- Ráðherrar og hópur þingmanna stjórnarflokkanna hófu á vordögum 2010 að vinna að tillögugerð um tekjur og útgjöld ársins 2011.
- Þingflokkar stjórnarflokkanna voru upfærðir reglulega um stöðu mála í vor og sumar.
- Tillögugerð lá fyrir í ágúst og rædd í ríkisstjórn og samþykkt þar að lokum af öllum ráðherrum.
- Þingflokkar beggja stjórnarflokkanna ræða drög að frumvarpinu og samþykkja að lokum að leggja frumvarpið fram í þeirri mynd sem það er. Forsenda þess að stjórnarfrumvarp sé lagt fram er að þingflokkar stjórnarflokka samþykki frumvarpið.
- Fjármálaráðherra mælir fyrir stjórnarfrumvarpi um fjárlög næsta árs á Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnar og stjórnarliðsins.
Þetta er eftir því sem ég best veit nokkuð hefðbundinn ferill að fjárlagafrumvarpi að undanskildu því að markmiðin og stefnan hafa legið lengur fyrir núna en tíðkast hefur.
Niðurstaðan er því mjög einföld: Fjárlagafrumvarpið er á ábyrgð stjórnvalda hverju sinni. Hvað varðar það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu er það á ábyrgð Vinstri grænna og Samfylkingar, ráðherra flokkanna og þingmanna sem áttu að vera meðvitaðir um hvað í því frumvarpi felst og samþykktu að leggja það fram eins og það lítur út í dag.