Þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa farið offari frá því þingið ákvað að kalla Landsdóm saman til að fara yfir embættisfærslur fyrrum formanns flokksins í aðdraganda efnahagshrunsins. Það endurspeglast í framkom þeirra gagnvert þeim þingmönnum sem stóðu að því máli bæði í þingmannanefndinni góðu sem og í atkvæðagreiðslu um málið á þinginu. Á fáum dögum hefur sjálfstæðisflokkurinn nánast einangrast á Alþingi og í öllum sínum pólitíska hroka hafnað samstarfi við aðra flokka um að leita leiða til lausna á erfiðum og aðsteðjandi málum.
Nú neita sjálfstæðismenn að taka þátt í samstarfi annarri stjórnmálaflokka á Alþingi og Hagsmunasamtaka heimilanna og annarra hagsmunasamtaka um lausn skuldavanda íslenskra heimila og fyrirtækja. Á meðan aðrir stjórnmálaflokkar hlýða kalli íbúa þessa lands um samstarf og samvinnu um verkefni dagsins, einangrast sjálfstæðisflokkurinn yst út á hægrivængnum að eigin vali. Með því háttarlagi undirstrikar flokkurinn getuleysi sitt og um leið hversu illa hann les í skilaboðin sem þjóðin er að senda stjórnmálunum. Á þau hefur hann reyndar aldrei hlustað en maður hefði ætlað að þau væru skýrari og háværari nú en oftast áður og myndu því ná eyrum forystu flokksins. En það hefur ekki gerst.
Það góða við afstöðu sjálfstæðisflokksins er að með framkomu sinni og háttarlagi sínu þjappar hann öllum öðrum flokkum saman til samstarfs um verkefnin. Þannig er sjálfstæðisflokknum nánast óvart að takast að mynd nýjan meirihluta á Alþingi um bráðaverkefni dagsins. Sá meirihluti samanstendur af ábyrgum stjórnmálaflokkum í stjórn og stjórnarandstöðu auk hagsmunasamtaka heimila og fyrirtækja. Sjálfstæðisflokkurinn stendur þar fyrir utan, það er hans val og með því vali hefur hann undirstrikað sérstöðu sína í íslenskum stjórnmálum í dag. Það skyldi þó aldrei verða svo að með framgöngu sinni nái forysta sjálfstæðisflokksins að þjappa þjóðinni og stjórnmálamönnum saman um að leggja dægurmál stjórnmálanna til hliðar um stund og einhenda sér í sameiningu að stóru málunum?