Svavar Halldórsson átti algjörlega galna frétt í sjónvarpinu í kvöld. Þar fullyrðir hann að 500 ríkisstarfsmönnum verði sagt upp störfum á næstunni og atvinnuleysi muni því hækka sem því nemur og fara í 7,7%. Fréttina byggir hann á því að áætlað er að launakostnaður ríkisins lækki um 4,3 milljarða á næsta ári og síðan deilir hann fjölda ríkisstarfsmann upp í áætlaða launasummu næsta árs, fær þannig út meðallaun og út frá því að ríkisstarfsmönnum muni fækka um 700, þar af verði 500 reknir, eins og Svavar kýs að orða það.
En Svavar er ekki í hópi bestu fréttamanna landsins og í því ljósi verður að líta þessa frétt. Launakostnaður ríkisins mun sannarlega lækka eins og fram kemur í frumvarpinu. Hann mun m.a. lækka vegna þess að ekki verður ráðið í störf sem losna og hann mun lækka vegna þess að laun munu lækka, m.a. með minni yfirvinnu- og aukagreiðslum eins og stefnt hefur verið að og þegar er byrjað að skila sér. Einhverjir munu því miður missa störf hjá ríkinu vegna efnahagsáfallsins og samdráttar í útgjöldum en að halda því blákalt fram og með því að beita fyrir sér slíkum reiknikúnstum að lægri launakostnaður ríkisins á næsta ári þýði það að 500 starfsmenn verði reknir er fullkomlega galin niðurstaða. Í kaupbæti ruglar fréttamaðurinn síðan saman atvinnuleysistölum ársins í ár við umfjöllun um fjárlagafrumvarp næsta árs þannig að nánast engin leið er að átta sig á því um hvað hann er að tala.
Svavar hefur áður átt undarlega spretti í fréttaflutningi að undanförnu eins og bent hefur verið á hér á síðunni. Svona vinnulag er ekki gott fyrir aðra fréttamenn RÚV sem ósjálfrátt eru settir undir sama hatt og Svavar ber að þessu leiti sem er auðvitað ósanngjarnt því á fréttastofu RÚV eru allir okkar bestu fréttamenn.
Er ósanngjarnt að biðja um vandaðri fréttaflutning hjá RÚV??