Atkvæðagreiðsla Alþingis um ákæru á hendur fyrrum ráðherrum þykir um margt áhugaverð og sérstök. Niðurstaðan er samt sem ekki jafn slæm og af er látið þó svo að ég hefði viljað að hún hefði verið með öðrum hætti. Verst hefði verið ef enginn fyrrverandi ráðherra hefði verið ákærður, næstverst líklega ef tveir úr sama flokki hefðu verið ákærðir (munaði aðeins einu atkvæði með tvo sjálfstæðismenn) en best hefði orðið að allir sem tilnefndir hefðu þurft að gera grein fyrir sínum málum fyrir Landsdómi. En niðurstaðan er sú að Landsdómur verður kallaður saman í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar til að dæma um embættisfærslur fyrrum ráðherra sem sannarlega bar mestu ábyrgðina á stjórn landsins í aðdraganda Hrunsins. Það er bara langt frá því að vera slæm niðurstaða. Þetta hefur aldrei gerst áður og því ber að fanga. Tilefnið er ærið, fullkomið hrun íslenska efnahagskerfisins, gríðarleg skuldasöfnun ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja, fjöldagjaldþrot, trúðverðugleiki þjóðarinnar erlendis að engu orðin og svo mætti lengi telja. Þess vegna er sú ákvörðun Alþingis að kalla Landsdóm saman til að dæma um ábyrgð ráðamanna alls ekki slæm, heldur þvert á móti rökrétt í ljósi þess sem hér gerðist. Annað hefði í rauninni verðir óeðlilegt af Alþingi í ljósi þess sem hér gerðist og þeirra gagna sem fyrir liggja um málið.
Það er því algjörlega ástæðulaust að tala ákvörðun Alþingis niður, hún er stórmerkileg og mun hafa góð áhrif á íslensk stjórnmál og samfélagið allt til langs tíma.