Stendur sjálfstæðsflokkurinn við stóru orðin eða lippast hann niður að venju?

Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins skrifaði líklega eina af sínu bestu pólitísku greinum í flokksblað sjálfstæðismanna í gær. Það þýðir þó ekki að greinin hafi verið góð, því það er húns alls ekki. Bjarni heldur því fram í greininni að sú hætta sem hann segir að hefði getað skapast við dóm Hæstaréttar um gengistryggðu lánin í sumar, hafi verið sambærileg því þegar efnahagsstefna sjálfstæðisflokksins komst í þrot haustið 2008 með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa þessa lands. Bjarni segir einnig að núverandi stjórnvöld hafi verið algjörlega óviðbúin dómi Hæstaréttar og enga hugmynd haft um hvernig ætti að bregðast við honum. Skoðum þetta aðeins betur.
Í efnahagshruninu 2008 töpuðust á bilinu 9.000 – 11.000 milljarðar íslenskra króna (níu til ellefu þúsund milljarðar króna). Þetta er upphæð sem nemur sex til áttföldri landsframleiðslu íslenska ríkisins. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á aðdraganda og orsök hrunsins hefðu fyrrverandi ráðherra (þeir sem nú stendur til að ákæra) getað komið í veg fyrir tap sem nemur 5-700 milljörðum (ríflega heildar útgjöld ríksins á ári) með því að grípa til viðeigandi aðgerða í tæka tíð og þiggja þá aðstoð sem Íslandi bauðst á þeim tíma. Þetta er varlega áætlað að mati þeirra sem til þekkja. Er þá ótalin vaxtakostnaður vegna Icesave, þjóðhagslegur kostnaður og allt það tjón sem hlaust af þeim skaða sem varð vegna þess að trúverðugleiki Íslands varð að engu vegna ráðleysis þáverandi ráðherra. Ekki er því ólíklegt að tapið sem ráðherrarnir færðu yfir á þjóðina en hægt hefði verið að koma í veg fyrir, sé vel yfir þúsund milljarðar króna, nálægt eins árs þjóðarframleiðslu. Um þetta má m.a. lesa í 6. binda skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, á bls. 117-180 ef einhver hefur áhuga á því.
Hefði dómur Hæstaréttar farið á þann veg að gengistryggðu lánin hefðu verið dæmd ólögleg (sem þau eru) og vextir á þeim hefðu haldið sér, hefði það kostað fjármálakerfið hér á landi um 350 – 360 milljarða, sem er ekki langt frá þeirri upphæð sem þjóðin þarf að bera vegna gjaldþrots Seðlabankans. Af þessari upphæð hefði ríkissjóður líklega þurft að punga út um 150-160 milljörðum til að halda bönkunum á floti en eignast hlut í þeim á móti. Það hefði því ekki verið tapað fé en vissulega rifið í ríkisreksturinn í auknu aðhaldi og sparnaði í útgjöldum.
Viðbrögð ríkisstjórnarinn við dómi Hæstaréttar í sumar voru skýr og fumlaus. Það koma ekki til greina að grípa inn í dóminn með lagasetningu eða öðrum hætti eins og formaður sjálfstæðisflokksins geru í skyn að hefði átt að gera í grein sinni. Ríkisstjórnin gaf það strax út að beðið yrði eftir dómi Hæstaréttar um vaxtakjörin á lánunum áður en næstu skref yrðu stigin. Og það var gert. Tóku ekki allir eftir því? Misstu fleiri pólitíska meðvitund á þessu tímabili en formaður sjálfstæðisflokksins??
Stjórnarandstaðan var kölluð til fundar um málið og hún upplýst um stöðu þess. Man einhver eftir því að slíkt hafi verið gert í aðdraganda stóra hrunsins 2008? Þvert á móti héldu þáverandi stjórnvöld öllu leyndu fyrir þingi og þjóð og það fá sem frá þeim koma voru helber ósannindi.
Bjarni Benediktsson segir efnahagshrunið 2008, upp á 9-11.000 milljarða sambærilegt þeim skell sem fjármálerfið varð fyrir við dóm Hæstaréttar í sumar, sem verður á bilinu 40-50 milljarðar þegar upp verður staðið.
Bjarni vill að Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir verði dregin fyrir landsdóm vegna þess að Hæstiréttir dæmdi það sem eftir var af því fjármálakerfi sem sjálfstæðisflokkurinn bjó til, ólöglegt. Er hægt að hafa frekari endaskipti á hlutunum? Formaðurinn gefur það jafnvel í skyn að fyrst eigi að hann sé tilbúinn til að styðja málssókn á hendur fyrrum ráðherrum ef Alþingi sé líka til í að ákæra núverandi ráðherra. Heldur formaður sjálfstæðisflokksins að hér sé um einhver samningsatriði að ræða? Að hægt sé að semja sig frá málinu eða ná samningum um hverja skuli draga til ábyrgðar er ekki? Auðvitað er það ekki þannig heldur verða menn einfaldlega að standa skil á gerðum sínu gagnvart þeim lögum sem í landinu gilda en ekki eftir því hvað formaður sjálfstæðisflokksins telur rétt að gera.
Nú stendur það upp á Bjarna Benediktsson að standa við stóru orðin, vilji hann á annað borð láta taka mark á sér. Nú verða sjálfstæðismenn einfaldlega að leggja fram tillögu á Alþingi um að sækja núverandi ráðherra til saka fyrir það að hafa ekki staðið sig nægilega vel við að moka skítinn eftir áratugaefnahagsóstjórn sjálfstæðisflokksins eins og Bjarni vill að verði gert. Aðeins þannig nær Bjarni að rísa upp úr sinni pólitísku smæð og aðeins þannig geta sjálfstæðismenn aftur orðið verðugur pólitískir andstæðingar.
Það er ekki bara nóg að bera sig að ofan og hnykla vöðvanna. Það þarf líka að láta á þá reyna og taka slaginn eins og boðið er til hans. Allt annað er ómark.