Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði í þingræðu í dag að það væri dapurlegt að ekkert hefði breyst í starfsháttum Alþingis þrátt fyrir hrun og þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. En hvað hefur sjálfstæðisflokkurinn lært? Flokkurinn leggst gegn því að þeir stjórnmálamenn sem mesta ábyrgð bera axli ábyrgð sína á því sem gerðist í aðdraganda hrunsins og í kjölfar þess. Flokkurinn leggst gegn öllum slíkum hugmyndum og vill ekki gera neitt í þeim málum. Flokkurinn vill ekki láta nokkurn mann grafast fyrir um fortíð sína eða forystumanna flokksins. Þetta sést ekki síst á því að sama dag og skýrsla þingmannanefndarinnar er tekin til umfjöllunar á Alþingi, sest fyrrverandi varaformaður flokksins aftur á þing eins og ekkert hafi í skorist og án þess að þau mál hafi verið gerð upp sem flæmdu hana af þingi á sínum tíma.
Pólitískt hlutskipti sjálfstæðismanna á Alþingi er dapurlegt og allt þeirra fas bendir til þess að þau hafi ekkert lært og vilji ekkert læra af því sem gerðist hér á landi á þeirra vakt.